Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

Loftslagsskattar ESB á millilandaflug.

[16:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Það er margt um ETS-kerfið að segja, en þetta viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir má þó eiga það að það er einhver skilvirkasta innleiðing á mengunarbótareglunni í okkar heimshluta sem fyrirfinnst. Ég leyfi mér að efast um að íslensk stjórnvöld hefðu fyrir eigin vélarafli innleitt eitthvað í líkingu við ETS-kerfið þegar kemur að stóriðju hér á landi. Íslensk stjórnvöld hefðu aldrei nokkurn tímann lagt gjald á stóriðju í þeim mæli sem gerist í gegnum ETS-kerfið sem við fáum í gegnum EES-samninginn. Nú er komið að því að fella millilandaflug undir kerfið að fullu vegna þess að það hefur fengið, eins og stóriðjan fékk fyrst um sinn, mjög vænan skerf af ókeypis heimildum úthlutað. Þá skiptir máli að það sé gert með sanngjörnum hætti og eðlilegt að ríki sem þurfa að stóla meira á millilandaflug en önnur leiti þess. En við verðum samt að vera óhrædd við að ræða forsendurnar aðeins krítískt ef við ætlum að berjast jafn fast fyrir því að hér verði óheft tengiflug, sem samkvæmt spám og áætlunum Isavia á að nema 12,9 milljónum farþega árið 2035. 12,9 milljónir flugferða losa ekkert smáræði af koltvísýringi. Ættum við kannski að taka umræðu um það hvort þessi óhefta þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar sé orðin of stór fyrir Ísland; hvort losun gróðurhúsalofttegunda (Forseti hringir.) af ferðalögum sé bara ein birtingarmynd á of stórri ferðaþjónustu sem er kannski ekki góð hugmynd atvinnuþróunarlega séð, byggðaþróunarlega séð, hvað varðar húsnæðismarkaðinn, (Forseti hringir.) umgengni við friðlýst svæði eða lofthjúpinn í formi flugs?