Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

Loftslagsskattar ESB á millilandaflug.

[16:14]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu hér í dag enda þjóðþrifamál fyrir okkur Íslendinga. Eins og margoft hefur komið fram þá styður Ísland markmið áætlunar ESB um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% fyrir árið 2030. ETS-kerfið er gott en ég hef þó áhyggjur af því og þeim tillögum sem hér eru til umræðu, af því að á sama tíma og við viljum draga úr losun með öllum ráðum þá þarf að taka tillit til legu landsins. Það er því miður afar líklegt að flugið myndi færast til annarra landa og því líklegt að þetta markmið sem við viljum öll ná, náist ekki með þessum aðgerðum gagnvart Íslandi.

Tilgangurinn með þessum breytingum, þegar horft er til ESB-landanna, er að hvetja fólk til að nota lestir eða aðrar almenningssamgöngur í stað þess að fljúga. Það liggur í augum uppi að við á Íslandi erum í sérstöðu í Evrópu að því leyti að við getum ekki nýtt okkur aðra samgöngumöguleika en flug til og frá landinu nema ef við ætluðum til Færeyja eða Danmerkur, þá býðst okkur auðvitað Norræna. Þessi aðferðafræði hefur því óhófleg kostnaðarleg áhrif á Ísland og bæði flugfélög og farþega sem hingað koma og héðan fara.

Mestu áhrifin á íslenskan almenning verða á ferðafrelsi og tengingar; við treystum á þessa tengingu sem lítil eyja í norðri. Það er mikilvægt að hugsa um að fólk ferðast af margvíslegum ástæðum, ekki bara sem ferðamenn, t.d. ferðast börn og ungmenni til að taka þátt í keppnum í margs konar íþróttum eða til að sækja nám. Þátttaka þeirra í alþjóðastarfi eflir og nærir okkar samfélag og það er mikilvægt að styðja við þau en ekki draga úr möguleikum þeirra til að taka þátt með óhóflegu verði á flugi.

Eins og hér hefur komið fram hafa ráðherrar ítrekað rætt þessi mál, bæði formlega og óformlega, við framkvæmdastjórn ESB sem og kollega sína. Við í EFTA-nefndinni höfum lagt mikla áherslu á þessi mál, nú síðast um miðjan mars þegar við funduðum með Evrópuþingmönnum. Það er skýr afstaða ríkisstjórnarinnar að við verðum að ná ásættanlegri lausn, annars getum við ekki innleitt þessa gerð í okkar lög enda myndi slíkt hafa ekki bara áhrif á ferðafólk heldur gríðarleg efnahagsleg áhrif og við það getum við ekki unað.