Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

Loftslagsskattar ESB á millilandaflug.

[16:16]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Í skýrslu stýrihóps á vegum samgönguráðuneytis um losunarheimildir í flugi frá árinu 2008 kemur fram að Evrópusambandið hafi þá þegar undirbúið og samþykkt tillögur um að losun gróðurhúsalofttegunda frá flugi yrði felld inn í viðskiptakerfi með losunarheimildir og sú breyting tók síðan gildi árið 2012, með reglum um að hluti losunar yrði ókeypis fyrst um sinn en að sú undanþága ætti að falla niður í þrepum og vera afnumin með öllu árið 2020. Þessi vinna hélt svo áfram 2019 þegar leiðtogar ESB-ríkjanna samþykktu stefnumarkandi aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrir árin 2019–2024, og enn stóð til að ókeypis losun yrði afnumin þótt upphaflega hafi verið gert ráð fyrir því að það yrði gert fyrr en varð raun á.

Þessi upptalning gerir að verkum að það er erfitt að trúa því að breytingarnar hafi komið ráðherrum ríkisstjórnarinnar á óvart, hvort sem það var fyrir tveimur árum, fyrir einu ári eða nú í vetur — það getur einfaldlega ekki verið. Í skýrslu þessa stýrihóps frá 2008 voru settar fram ábendingar til stjórnvalda um að beita sér á vettvangi EES til að koma á framfæri sérstöðu Íslands og ábendingar um að unnið yrði að rannsóknum á hagfræðilegum áhrifum kvótasetningar sem þessarar til að renna stoðum undir hagsmunabaráttu fyrir íslensku þjóðina. Mér finnst því full ástæða til að taka undir spurningu fyrirspyrjanda, hv. þm. Bergþórs Ólasonar, varðandi það hvaða vinna hafi farið fram við að verja stöðu Íslands sem miðstöðvar tengiflugs og hvernig hafi verið haldið utan um samskipti vegna þessa máls í hátt í einn og hálfan áratug. Ég spyr vegna þess að þetta skiptir máli. Það skiptir máli að við séum í stakk búin til að fá það besta út úr þessum samningi fyrir íslenska þjóð og getum undirbúið okkur undir svona breytingar, sem eru líklegar til að hafa fyrirsjáanlega meiri áhrif á okkur en önnur lönd sem samningurinn tekur til vegna sérstöðu okkar.

En ég minni á að það eru líka hagsmunir okkar að taka fullan þátt í loftslagsbaráttunni. (Forseti hringir.) Ég kem kannski betur inn á það á eftir en ég ætla að segja hér að ég er ánægð að heyra ráðherra taka af skarið með það að við ætlum ekki að skorast undan því verkefni.