Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

Loftslagsskattar ESB á millilandaflug.

[16:19]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Það er rétt að í bréfi Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdaráðs Evrópusambandsins, er landfræðileg lega Íslands staðfest en hún hefur legið fyrir um allnokkra hríð. [Hlátur í þingsal.] En í næstu setningu á eftir þeirri staðfestingu segir Ursula von der Leyen, með leyfi forseta:

„… regarding geographical location,“ — sem sagt það sem hæstv. ráðherra vísaði til áðan — „the EU ETS has applied to flights since 2012, and the Commission proposal makes only marginal changes to the geographical scope.“

Þarna segir í einfaldri þýðingu í næstu setningu, að kerfið hefur verið í gildi síðan 2012 og þær breytingar sem núna er verið að gera séu bara „marginal“, örlitlar. Því er þessi viðurkenning á því að Ísland sé staðsett þar sem það er eiginlega slegin af í næstu setningu á eftir, þar sem er gert lítið úr þessu sjónarmiði.

Það er einmitt þetta sem ég óttast— eins og hv. þm. Ingibjörg Isaksen kom inn á hérna áðan, þegar hún fagnaði því að ánægjulegt væri að viðurkenning á sérstöðu er varðar landfræðilega staðsetningu væri komin, ef ég skildi hv. þingmann rétt — að þessi staðhæfing standist ekki þegar á reynir. Ef allt væri „under control“ þannig að ekki þyrfti að hafa áhyggjur, þá væri hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra ekki að fara til Brussel á morgun til að reyna að tala máli Íslands í þessum efnum. Þá værum við ekki með áhyggjur af þessu. Ef við lesum svarbréf Ursulu von der Leyen við bréfi hæstv. forsætisráðherra, þá er dregið eins og nokkur kostur er úr mikilvægi þess að Evrópusambandið staðfesti landfræðilega legu Íslands sem hefur legið fyrir lengi, bara með því að segja, með leyfi forseta: „the […] proposal makes only marginal changes“. (Forseti hringir.) Þetta eru bara jaðarbreytingar, sáralitlar, sem verið er að gera með þessu. Þið áttuð að sjá þetta allt fyrir.