Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

Loftslagsskattar ESB á millilandaflug.

[16:21]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. „Hlýnun jarðar verður óstöðvandi og stjórnlaus ef ekki tekst að minnka losun gróðurhúsalofttegunda – á næstu tveimur árum,“ sagði Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, í síðustu viku. Orðin lét hann falla eftir að ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna kom út, skýrsla sem er áfellisdómur yfir aðgerðum ríkja til að standa við Parísarsamkomulagið frá 2015 þar sem ríki heims samþykktu að hlýnun jarðar myndi verða innan við 2°C og helst nær 1,5°C.

Eftir að samkomulag náðist í desember sl. um breytingar á ETS-kerfinu innan Evrópusambandsins, um að fella niður í skrefum losunarheimildir til flugfélaga, er ljóst að staða Íslands hvað varðar samgöngur kemur til með að taka gríðarlegum breytingum og mun hafa áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra flugfélaga og þá óhjákvæmilega hafa áhrif á ferðaþjónustugreinarnar hér á landi.

Hins vegar getum við leyst þennan vanda sjálf. Nýverið var ég skipuð formaður starfshóps sem hefur það hlutverk að kanna fýsileika þess að framleiða flugvélaeldsneyti hér á landi þannig að við yrðum mögulega sjálfbær með flugvélaeldsneyti; með öðrum orðum að kanna hvort hagkvæmt verði að nýta innlenda raforku til að framleiða flugvélarafeldsneyti. Nefndin er rétt að hefja störf en ég geng bjartsýn til móts við þetta verkefni því að ég er sannfærð um að við getum orðið sjálfbær um flugvélaeldsneyti hér á landi með framleiðslu á rafeldsneyti. En til að svo megi verða verðum við að framleiða meira rafmagn. Ef við náum árangri í þessum efnum yrði það gríðarlegt framlag okkar til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, en þangað til verðum við að fá aðlögun að þessu kerfi vegna landfræðilegrar stöðu okkar.