Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

Loftslagsskattar ESB á millilandaflug.

[16:23]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er stundum sagt að ríkið hafi aðeins hagsmuni og það á sannarlega við í þessu máli, því að það snýst um hagsmunagæslu, ellegar skort á henni, og frekar vandræðalega stöðu sem íslensk stjórnvöld eru í. Það hefur verið rakið hér í þessari umræðu hvernig það hefur legið fyrir árum saman að flugið yrði tekið upp í ETS-kerfið. Við skulum líka halda því til haga að Ísland hefur notið þess gríðarlega að vera hluti af viðskiptakerfinu með losunarheimildirnar, enda falla 40% losunar hér á landi undir þetta sama kerfi.

En hvers vegna sváfu stjórnvöld á verðinum? Hvers vegna er svona lítill árangur af hagsmunagæslunni? Það er talað um aðlögun og upptökuna í EES eins og það sé eitthvað sem enginn hafi séð fyrir. Hvað gerðist fyrir árið 2021? Þessi tímalína hefst alltaf þar, en hvað var í gangi tíu ár þar á undan í þessari hagsmunagæslu? Við þurfum að fá svör við þessu, frú forseti, og við þurfum einhvern veginn að fá það á hreint hvernig það gat gerst á Brussel-vaktinni svokölluðu, að undirbúningurinn á tillögunum, sem kallast á ensku „Fit for 55“, hafi einhvern veginn bara farið fram hjá íslenskum stjórnvöldum. Það eru meiri háttar afglöp, frú forseti — meiri háttar afglöp, vegna þess að stjórnvöldum ber að verja þessa hagsmuni og koma þeim þannig til skila að hagsmunir okkar séu skýrir, og eins og hæstv. ráðherra hæstv. orðaði það reyndar: „Þau skilja okkur núna.“ Það er gott að heyra, en hagsmuna er náttúrlega best gætt með því að eiga sæti við samningaborðið. Við vitum það öll. Á það reynir kannski ekki beinlínis núna, en ég hef miklar áhyggjur af því að sofandaháttur íslenskra stjórnvalda hafi teflt þessu mikilvæga máli í tvísýnu.