Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

bið eftir þjónustu transteyma.

697. mál
[17:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir þessa fyrirspurn. Hv. þingmaður spyr hver ráðherra telur að sé ásættanlegur biðtími eftir því að komast í þjónustu transteymis. Ég vil byrja á að, ég veit ekki hvort rétta orðalagið er að taka undir með hv. þingmanni en ég vil samsinna honum í því að þetta er flókið að því leytinu til að það eru, og mér fannst hann orða þetta vel, biðlistar eftir því að komast á biðlista. Eins og hv. þingmaður endaði hér á þá er þetta flókið ferli og við þurfum að sinna þessu sérstaklega í greiningarferlinu. Svo við höldum okkur við spurninguna um ásættanlegan tíma þá var það árið 2016 sem embætti landlæknis gaf út viðmiðunarmörk varðandi hvað getur talist ásættanleg bið eftir heilbrigðisþjónustu. Viðmið þessi eru sambærileg við viðmið nágrannalanda okkar og ásættanlegur biðtími að mati embættisins, eftir skoðun sérfræðings, er 30 dagar og biðtími eftir aðgerð eða meðferð hjá sérfræðingi skal vera innan við 90 dagar frá greiningu. Þetta eru almenn viðmið og hér er ekki tekið tillit til eðlis þjónustunnar, þótt bráðatilvik séu auðvitað ekki inni í þessum viðmiðum. En hver ásættanlegur biðtími er hlýtur að vera háð mörgum breytum, huglægum og hlutlægum, og því er kannski erfitt fyrir mig að standa hér og fullyrða um það hvað er ásættanlegt. Ég myndi leyfa mér að segja að alla jafna væri best að hafa biðtíma sem stystan og taka mið af þeim svörum sem verið er að leita eftir og taka tillit til þeirrar löggjafar sem hv. þingmaður vísaði til þegar við ræðum um kynrænt sjálfræði og það sem við köllum kynstaðfestandi heilbrigðisþjónustu. Þarna verðum við auðvitað að ná tiltölulega hratt utan um að fara í gegnum þetta með einstaklingnum og það tengist síðan helstu ástæðum þess að biðtími er jafn langur og raun ber vitni, til hvaða ráða hefur verið gripið til að stytta hann og hvaða aðgerðir eru áformaðar.

Nú er það þannig með starfsemi transteymanna, sem ég held að hafi verið góð hugmynd á sínum tíma og nauðsynleg, að margt hefur breyst. Samfélagsumhverfið er allt öðruvísi í dag, jákvætt á margan hátt, t.d. löggjöfin sem ég vísaði til og hv. þingmaður. Margt hefur verið dregið fram sem styrkir það að við eigum að taka utan um þessa þjónustu. En á sama tíma hefur þetta orðið skýrara og þjónustuþörfin aukist mjög hratt, sem er í raun þróun sem ég held að hafi ekki verið fyrirséð, ef ég reyni bara að hugsa aftur til 2016 og hvernig umræðan var þá.

Þetta er líka svipuð þróun og hefur átt sér stað víða um heim. Teymin eru tvö innan Landspítala, fyrir börn og fullorðna. Transteymið fyrir börn er starfrækt innan BUGL og fjöldi tilvísana þangað hefur þrefaldast frá því að lög um kynrænt sjálfræði voru samþykkt árið 2019. Það hefur einnig orðið gríðarleg aukning á fjölda tilvísana til transteymis fullorðinna, sem kallað er teymi um kynvitund og breytingar á kyneinkennum fyrir fullorðna. Starfsemi þess hófst árið 2012 og ég held að við höfum staðið okkur ágætlega í að byggja þetta upp en kannski ekki náð að fylgja því nægilega vel eftir.

Síðastliðin ár hefur beiðnum hins vegar fjölgað mjög hratt, 119 tilvísanir árið 2021 og 125 árið 2022. Því er augljóst að eftirspurn eftir þjónustu, bæði fyrir börn og fullorðna, hefur verið langt umfram getu og við verðum að horfast í augu við það. Landspítalinn hefur hafið vinnu við að endurskoða þjónustuna í heild. Það þarf að fjölga stöðugildum fagfólks í báðum teymum og þetta er mjög fjölþætt þjónusta sem við þurfum að tryggja, ekki síst andlegi- eða geðheilbrigðisparturinn sem fylgir því að fara í gegnum svona flókið ferli, og fjölbreyttar þarfir. Það er auðvitað í raun og veru lögbundið hlutverk og verður heldur ekkert undan því vikist. Ég skal reyna að halda áfram, það var ein spurning eftir sem hv. þingmaður kom inn á.