Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

bið eftir þjónustu transteyma.

697. mál
[17:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs í þessari umræðu og fyrirspurn til hæstv. ráðherra til þess að taka undir og leggja áherslu á að það er gríðarlega mikilvægt að stytta biðtímann, bæði þegar kemur að þjónustu BUGL hvað varðar málefni trans ungmenna en svo líka auðvitað fullorðinsteymisins. Ég vil nota tækifærið til að brýna hæstv. ráðherra áfram í því að gefa þessu máli það vægi sem það þarf, því líkt og ráðherrann fór yfir hefur fjöldinn sem leitar í þessi teymi aukist, sem ég held að sé líklega m.a. vegna þess að við höfum svo góðan ramma í löggjöfinni okkar um málefni trans fólks, lögum um kynrænt sjálfræði, sem við samþykktum fyrir nokkrum árum. (Forseti hringir.) Ég vil að lokum taka undir það að mikilvægt er að sálfræðiþjónusta, sem er oft partur af því að fá ákveðið sálfræðimat til að komast áfram hjá þessu teymi, sé þar undir. (Forseti hringir.) Það er fyrst og fremst þess vegna sem ég kveð mér hljóðs hér, því þetta er gríðarlega mikilvægt mál.