Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

forseti COP28.

698. mál
[17:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Einmitt þegar ríki heims eru farin að ná saman um metnaðarfullar aðgerðir í loftslagsmálum þá koma hagsmunaöflin úr hinni áttinni og sýna hvers þau eru megnug. Þau hafa kannski fengið að fara leynt fram að þessu og staðið í vegi fyrir framförum árum saman, en við höfum t.d. séð það á hverri loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á fætur annarri, að fjöldi einstaklinga sem er skráður á ráðstefnuna sem er með bein tengsl við olíu- eða gasiðnað, hefur bara vaxið í veldisvexti. Þannig var fundið út að 636 einstaklingar hefðu mætt á síðustu ráðstefnu COP27, sem haldin var í Egyptalandi, til þess að tala máli olíu og gass á ráðstefnu sem í grunninn ætti að snúast um að koma í veg fyrir notkun þeirra mengandi orkugjafa.

Sama sjáum við síðan varðandi vinnu við alla grunntexta samningsins. Við vorum t.d. í síðustu viku að fá nýja skýrslu frá vísindanefnd IPCC, þar sem aðildarríki fengu samt að gera athugasemdir við textann. Þar sjáum við t.d. að Sádi-Arabía, stærsta olíuframleiðsluríki í heimi, vann að því að orðalagið „rót vandans er jarðefnaeldsneyti“ yrði tekið úr textanum af því að það stuðaði olíuríkið. Noregur, stærsta olíuframleiðsluríki Evrópu, vann í því að ná niður orðalagi varðandi samdrátt í losun og svo má áfram telja. Kína var þarna að gera sig gildandi og fleiri.

Mig langar að spyrja ráðherra í dag hver afstaða hans sé til þess að næsta ráðstefna verði ekki bara plöguð af því að einstaklingar mæti þangað með skírteini til að hafa áhrif á viðræður, heldur verði viðræðunum beinlínis stýrt af forstjóra eins stærsta olíufyrirtækisins í heimi. Sameinuðu arabísku furstadæmin tilnefndu sum sé Sultan Al Jaber sem forseta COP28, en hann stýrir og hefur um nokkurt skeið stýrt ríkisolíufyrirtæki Abú Dabí. Munu íslensk stjórnvöld hvetja ríkisstjórn Sameinuðu arabísku furstadæmanna til að draga tilnefninguna til baka eða grípa til einhverra aðgerða til að byggja undir trúverðugleika samtalsins? Það getur ekki verið að refur eigi að stýra samningaviðræðum inni í hænsnakofa.