Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

forseti COP28.

698. mál
[18:03]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi dregið þetta ágætlega saman, þ.e. að við verðum að draga ríki að borðinu. Það er harla ólíklegt, að því gefnu að gestgjafaríkið sé með formann, að það sé ekki einhver aðili sem sé tengdur þessari framleiðslu sem hefur náttúrlega einkennt þetta ríki. En hv. þingmaður bendir líka réttilega á að þeir hafi gengið lengra en flestir á þessu svæði þegar kemur að því að nýta endurnýjanlega orkugjafa.

Hv. þingmaður er að vísa hér til þess, og ég geri engar athugasemdir við það, hvað tekist er á um. Hv. þingmaður vísaði líka í fyrri ræðu sinni til hluta sem eru nær okkur en þessi ríki. En við erum bara í þessari stöðu og þetta er ekki einfalt verk. Það er enginn að segja að þetta verði auðvelt eða sé auðvelt. En ég held að það sé mjög erfitt ef ekki útilokað, þar sem allir þurfa að taka þátt til að árangur náist, að taka ekki samtalið. Það er alveg ljóst að bestu niðurstöður væru að þessi ríki, sem eru svona öflug og stór þegar kemur að framleiðslu á olíu og gasi, væru fremst meðal jafningja og væru með metnaðarfull markmið.

Ég ætla ekkert að spá neinu fyrir en hv. þingmaður er að draga hér athygli að einum vandanum í þessu samstarfi og samtali. Ég veit að hv. þingmaður og margir fleiri, ef ekki allir, gætu tilgreint mjög margt annað sem er áskorun þegar kemur að þessu stóra verkefni okkar.