Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

endurskoðun laga um verndar- og orkunýtingaráætlun.

601. mál
[18:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Isaksen) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka ráðherra fyrir að koma hingað í dag og eiga samtal við mig um hvort unnið sé að endurskoðun á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun og hvort það sé að hluta til eða í heild. Á síðasta þingi náðum við mikilvægum árangri þegar losað var um margra ára stöðnun vegna rafmagns.

Sú sem hér stendur telur rammaáætlun vera mikilvægt stjórntæki þegar kemur að vernd svæða og orkunýtingu, en í ljósi þess ástands sem hér er uppi í orkumálum, þ.e. hvernig við ætlum að bregðast við aukinni orkuþörf á sama tíma og við höfum sett okkur metnaðarfull markmið um orkuskipti, er að mínu mati óumflýjanlegt að endurskoða löggjöfina og hvernig hún nýtist okkur. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun verði endurskoðuð frá grunni til að tryggja ábyrga og skynsamlega nýtingu og vernd virkjunarkosta á Íslandi.

Reynsla síðustu ára hefur svo sannarlega sýnt okkur hversu mikilvægt það er að hefja þessa vinnu strax og það helst í gær. Í vinnu umhverfis- og samgöngunefndar á síðasta þingi við svokallaða rammaáætlun 3 var einnig farið vel yfir mikilvægi þess að ráðist yrði í þessa vinnu. Sú umræða endurspeglaðist í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar á þskj. 1210 í máli 322 og ætla ég mér ekki að endurtaka það hér í heild sinni, enda geri ég ráð fyrir að hæstv. ráðherra þekki nú ansi vel það álit.

Það er þó eitt sem ég vil árétta hér sérstaklega og það snýr að verndun heilu vatnasviðanna. Ég vil að það komi skýrt fram hér að ég er alls ekki á móti friðlýsingum og tel þær nauðsynlegar þar sem það á við. En ég velti því samt fyrir mér hvort við höfum aðrar leiðir til þess að friða viðkvæmar náttúruperlur en að friðlýsa heilu vatnasviðin, hvort það sé hægt að friðlýsa kostina án þess að öll vatnasviðin liggi undir, en að við okkar vinnu þurfi ávallt að gæta þess að ganga ekki lengra en þörf er á. Það er afar mikilvægt að við höfum það á bak við eyrað. En á sama tíma megum við heldur ekki skerða möguleika á nýtingu orkuauðlinda til framtíðar þannig að við séum ekki að loka á einhverja möguleika. Að baki því liggja þjóðhagslegir hagsmunir. Með því að skerða nýtingu heilla vatnasviða erum við einmitt að binda hendur þjóðarinnar gagnvart því að nýta auðlindir sínar um ókomna tíð. Að mati nefndarinnar þykir það nauðsynlegt að ráðherra meti fjölda raskaðra og óraskaðra vatnasviða á Íslandi, nauðsyn friðlýsingar þeirra í heild sinni í stað áhrifasvæðis einstakra virkjunarkosta, stöðu slíkra friðlýsinga í dag og fjölda vatnasviða í nýtingu og við þá vinnu þurfi að horfa sérstaklega til tengsla við vatnaáætlun.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hefur ráðherra hafið þessa vinnu sem nefndin kallaði eftir? Og ef svo er, hvenær gerir ráðherra ráð fyrir því að þeirri vinnu ljúki?