Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

endurskoðun laga um verndar- og orkunýtingaráætlun.

601. mál
[18:09]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og áhuga hv. þingmanns á þessu mikilvæga máli — málasviði, getum við sagt.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að endurskoða eigi frá grunni lög um verndar- og orkunýtingaráætlun. Markmið þeirrar endurskoðunar sé að tryggja nýtingu orkuauðlinda með hagkvæmum og sjálfbærum hætti. Þá er í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar frá því á 152. löggjafarþingi að finna nokkuð ítarlega umfjöllun um tiltekna þætti laganna sem nauðsynlegt er að endurskoða eins og hv. þingmaður bendir á í fyrirspurn sinni. Að auki liggur fyrir að þó svo að virkjunarkostir í Skjálfandafljóti hafi verið samþykktir í verndarflokk áætlunarinnar var það mat meiri hlutans að beðið yrði með friðlýsingu þeirra verndarsvæða þar til lögin hafa verið endurskoðuð og þar með mati á friðlýsingu heilla vatnasviða.

Í stjórnarsáttmála kemur einnig fram að setja eigi sérstök lög um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku. Áhersla verði lögð á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verði að tryggja afhendingaröryggi. Mikilvægt sé að breið sátt ríki um uppbyggingu slíkra vindorkuvera og tillit sé tekið til sjónrænna áhrifa, dýralífs, og þá sérstaklega fuglalífs, og náttúru. Í því samhengi verði tekin afstaða til gjaldtöku fyrir slíka nýtingu.

Þá verði mótuð stefna um vindorkuver á hafi. Í samræmi við þetta setti ég á fót tvo starfshópa, annars vegar starfshóp sem hefur það verkefni að fjalla um vindorku á landi og gera drög að lagafrumvarpi, og hins vegar starfshóp um vindorku á hafi. Einnig setti ég sérstaka vinnu í að skoða það hver væri reynsla og umhverfi Norðmanna, Dana, Skota og Nýsjálendinga af sambærilegum aðstæðum. Það er ekki langt í það, virðulegi forseti, að það komi áfangaskýrsla þar sem niðurstaða eða stöðutaka þessa hóps verður gerð opinber í kjölfarið vegna þess að þetta er þannig mál að við verðum að ræða þetta og helst út frá staðreyndum. Síðan verður fundað um þetta um landið og vonast ég til þess að það verði góð umræða, ekki bara innan þings heldur líka meðal þjóðar. Við þurfum auðvitað að sætta okkur við það, og ég held að það sé ekkert sem við þurfum að vera ósátt við, að málefnið, að framleiða græna orku, hvort sem það er með vindi eða öðru, er þess eðlis, og við höfum rætt það svolítið og reyndar ekki sinnt því sem skyldi í langan tíma, að við gerum það ekki og náum ekki breiðri sátt nema að gefa okkur tíma til umræðu þar sem allir þeir aðilar sem áhuga hafa á málinu og tengjast því hafa aðgang að slíkum skoðanaskiptum.

Svo ég fari nú aftur í starfshópinn þá var eitt af verkefnum starfshópsins sem fjallar um málefni vindorku á landi að meta hvort vindorkukostir eigi að falla undir rammaáætlun eða ekki. Það er að mínu mati mikilvægt að sá starfshópur ljúki störfum og skili sínum tillögum áður en farið er í heildarendurskoðun á lögum um rammann. Að því sögðu vil ég leggja áherslu á að það er á dagskrá að hefja slíka endurskoðun fyrr en síðar og sé ég fyrir mér að hún geti hafist af fullum krafti næsta haust. Þá er mikilvægt að hafa í huga að nú þegar liggja fyrir ábendingar frá ólíkum aðilum um hvaða atriði þurfi að endurskoða í löggjöfinni. Við höfum því ákveðinn grunn til að vinna út frá þegar við metum það sem svo að tímabært sé að hefja vinnuna formlega.

Virðulegi forseti. Málið er af þeirri stærðargráðu að umræðan er algjör forsenda þess að árangur náist. Það væri svolítið skrýtið ef við værum að vinna þetta í sitthvoru lagi því að við verðum líka að skoða vindorkuna og það er nokkuð sem við erum búin að vera að vinna að og það er stutt í að stöðuskýrsla líti dagsins ljós.