Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

endurskoðun laga um verndar- og orkunýtingaráætlun.

601. mál
[18:14]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Ingibjörgu Isaksen, og hæstv. ráðherra fyrir hans svör. Ég heyri það, virðulegi forseti, að við sem erum í salnum erum sammála um það að rammaáætlun er mikilvægt tæki, enda komum við inn á það í okkar áliti í meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar sl. vor þegar við vorum að afgreiða frá okkur svokallaðan þriðja áfanga áætlunarinnar.

Þar sem líka er kveðið á um endurskoðun laganna, eins og segir í stjórnarsáttmála og var rakið hér að ofan, þá þarf að horfa til þess að skapa traust á þessu ferli og útrýma allri tortryggni og auka sátt um einstaka virkjunarkosti og forsendur röðunar einstakra kosta. Eins og frummælandi fór yfir í sinni ræðu þá var töluvert af þeim atriðum listað upp sem komu inn á borð nefndarinnar í meðförum málsins og ég heyri að hæstv. ráðherra ætlar að horfa til þessara þátta sem og annarra athugasemda sem komið hafa í meðförum málsins. Ég hlakka til þeirrar vinnu að sjá hvernig unnið verður að endurskoðun þessara laga til þess að skapa þessa auknu sátt (Forseti hringir.) og útrýma þeirri tortryggni sem hefur skapast um þessa vinnu alla.