Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

endurskoðun laga um verndar- og orkunýtingaráætlun.

601. mál
[18:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Ef ég man rétt þá var þetta atriði sem hv. málshefjandi minnist á varðandi vatnasviðin bara útkljáð ágætlega af ráðuneyti hæstv. ráðherra með minnisblaði sem við fengum, þar sem staðhæfingar Landsvirkjunar um að óheimilt væri að friðlýsa heil vatnasvið með þeim hætti sem gert hafði verið. Þær staðhæfingar voru bara slegnar út af borðinu af sérfræðingum ráðuneytisins. Þannig að við í minni hlutanum gagnrýndum, svo því sé haldið til haga, að meiri hlutinn hefði lætt þessu inn í nefndarálit sitt enda væri lagaramminn bara ansi skýr og algjör óþarfi að vera að ráðast á þær örfáu ósnortnu ár sem við eigum í landinu. Nóg hefur nú verið tekið af öðrum.

En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, af því að ég heyrði hann tala mikið um vindinn, (Forseti hringir.) sem vissulega þarf að koma einhverjum böndum á, (Forseti hringir.) hvað líði vinnu við að ná betur utan um smávirkjanir, vegna þess að fyrir einhverja algjöra tilviljun þá hanna verkfræðingar virkjanir alltaf bara rétt undir 10 MW-mörkunum, sem er einmitt það sem þarf til að koma þeim fram hjá rammaáætlun. (Forseti hringir.) Þetta er orðinn mikill plagsiður sem verður að fara að taka á (Forseti hringir.) og var einmitt bent á í nefndarálitum, bæði meiri hluta og minni hluta.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna þingmenn á að virða ræðutíma.)