Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

endurskoðun laga um verndar- og orkunýtingaráætlun.

601. mál
[18:19]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Ingibjörgu Isaksen, sem hóf þessa umræðu, en sömuleiðis bæði hv. þm. Orra Páli Jóhannssyni og hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir þeirra innlegg. Mér fannst þau draga ágætlega fram í þessum stuttu ræðum hvað málið er stórt og hvað þarf að taka á mörgum þáttum. Hv. þm. Orri Páll Jóhannsson talaði um að það væri lykilatriði að útrýma tortryggni. Ég held að ef við gætum komist þangað þá værum við bara komin ansi langt því að oft finnst mér fólk vera að ræða hlutina fyrst og fremst vegna þess að það treystir ekki hvað er sagt og hvað er í gangi frekar en að það sé ósammála.

Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson vísaði til smávirkjana, sem er nokkuð sem hefur verið til umræðu. En ég held að við getum alveg fullyrt að ástæðan fyrir því að þessi leið er farin varðandi þessar smávirkjanir — ef ég miða við mínar bestu heimildir væri stundum hægt að hafa þær stærri. Það er náttúrlega ekki gott ef það er sátt um viðkomandi virkjun að við séum ekki að nýta það eins og hægt er, ef menn hafi ekki trú á fyrirkomulagi eins og er í dag. Við þurfum auðvitað bara að ræða þessa hluti hreinskilnislega og á dýptina. Hv. þm. Ingibjörg Isaksen vísar í margt, hún vísar í orkunýtni, sem er stórmál, og náttúruvána, sem við Íslendingar höfum verið svolítið lánsöm með núna í nokkurn tíma, að við höfum ekki séð neinar af þessum stærstu náttúruhamförum sem hafa riðið yfir þjóð okkar. En það er eitt sem er alveg öruggt, það verða aftur náttúruhamfarir á Íslandi, það er alveg öruggt. Við þurfum að vakta það vel og við þurfum líka að miða innviði okkar, hvort sem það snýr að raforku eða annarri orku, út frá þeirri áhættu sem er til staðar. Þannig að við eigum hér stórt verkefni fyrir höndum og (Forseti hringir.) ég hlakka til að vinna með hv. þingmönnum og þingheimi öllum að þessu mikilvæga verkefni.