Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

förgun dýraafurða og dýrahræja.

441. mál
[18:29]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu sem hér fer fram um förgun dýrahræja og sláturúrgangs sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur matvælaframleiðslu þar sem byggt er á að framleiða matvæli úr afurðum dýra. Það er mikilvægt að standa vel að förguninni og gæta hreinlætis og öryggis en á sama hátt mjög mikilvægt að finna lausn og úrræði sem stenst kröfur án þess að skapa ný vandamál, svo sem eins og nýja smithættu eða óhóflegan flutningskostnað. Mikilvægt er að skoða það strax í upphafi hvernig hægt er að ná utan um þann hluta verkefnisins því að óhjákvæmilega fellur kostnaðurinn af förguninni á einhvern, hvort sem það eru bændur, neytendur eða almenningur.