Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

staða og framvinda hálendisþjóðgarðs.

385. mál
[18:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jódís Skúladóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir að taka þátt í þessari brýnu umræðu hér í dag. Á miðhálendi Íslands er að finna einstaka náttúru og stærstu ósnortnu víðerni Evrópu. Þar er fyrir stór þjóðgarður í kringum Vatnajökul og fjöldi þegar friðlýstra svæða. Það hefur verið stefna okkar í VG frá stofnun hreyfingarinnar að leggja ríka áherslu á aukna vernd náttúru Íslands. Stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu er eitt af stóru verkefnunum á þeirri vegferð.

Með leyfi forseta vil ég grípa niður í grein forvera ráðherra í starfi, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, sem sagði:

„Á hálendi Íslands ægir saman beljandi jökulám, fágætum gróðurvinjum, svörtum sandauðnum og sérstæðum jarðmyndunum sem finnast hvergi annars staðar í heiminum á einu og sama svæðinu.“

Það er skylda okkar sem höfum fengið að njóta þessarar miklu náttúru að tryggja aðgengi komandi kynslóða að þessu stórbrotna svæði. Áhrif slíkra garða eru langt umfram verndargildið eitt og sér og tilvist þeirra verið sem vítamínsprauta fyrir aðliggjandi samfélög og skapað efnahagsleg verðmæti og fjölda starfa bæði við stofnanirnar sjálfar og vegna afleiddra starfa, en innlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að það fjármagn sem hið opinbera leggur í þjóðgarða skilar sér margfalt til baka. Alls eru 50 heilsársstörf tengd Vatnajökulsþjóðgarði en ég hef lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að efla enn frekar landvörslu, ekki síst til að sporna við utanvegaakstri.

Þjóðgarðar hafa mikið aðdráttarafl og bjóða upp á ótal möguleika í efnahagslegum ávinningi á sama tíma og vernd náttúrunnar er höfð að leiðarljósi. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra að eftirfarandi:

1. Hver er staðan á þeirri vinnu að stofna þjóðgarð á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á hálendinu með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, sem er eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar samkvæmt stjórnarsáttmála hennar?

2. Telur ráðherra mögulegt að friðlýsa stærri hluta af þjóðlendum svo tengja megi svæði saman í samfelldum þjóðgarði á hálendinu þegar friðlýst svæði og þeir jöklar sem ekki eru friðlýstir, að hluta eða í heild, liggja ekki saman? Hvaða landsvæði sér ráðherra fyrir sér að gætu fallið þar undir?

3. Telur ráðherra að einhver þeirra svæða sem felld voru úr rammaáætlun sem virkjunarkostir á 152. löggjafarþingi verði friðlýst innan þjóðgarðs á hálendi Íslands og ef svo er, hver?