Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

staða og framvinda hálendisþjóðgarðs.

385. mál
[18:40]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli og ég vona að umræðan verði hér sem oftast um þetta mikilvæga málefni.

Ég ákvað síðastliðið vor að skipa þriggja manna starfshóp sem fékk það hlutverk að vinna skýrslu sem varpa á ljósi á stöðu friðlýstra svæða á Íslandi og áskoranir sem þeim fylgja. Staðan í dag er þannig að á Íslandi eru 130 friðlýst svæði, þar af þrír þjóðgarðar. Ef þjóðlendurnar eru teknar með er þetta um 40–50% að flatarmáli landsins. Af þessum friðlýstu svæðum er búið að gera stjórnar- og verndaráætlanir fyrir 33 og 15 eru í vinnslu. Það er í rauninni tækið sem er nýtt, getum við sagt, til að vernda, nýta og njóta svæðanna. Þau eru undir stjórn þriggja stofnana og umsjón með svæðunum og stjórnfyrirkomulag á þeim er því með ólíkum hætti.

Á undanförnum árum hefur farið fram umræða um tækifæri og áskoranir sem fylgt geta því að friðlýsa landsvæði á Íslandi. Eins og hv. þingmaður nefnir í sinni fyrirspurn þá er tilgreint í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að á kjörtímabilinu verði, með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, stofnaður þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á hálendinu.

Starfshópurinn hefur skilað skýrslu til mín og hún hefur nú verið gerð opinber en skýrslunni er ætlað að vera grunnur fyrir frekari skoðun á þessu málefni og hjálpa til við þær ákvarðanir sem teknar verða um framvindu þessa máls. Ég hvet alla hv. þingmenn til að kynna sér þessa skýrslu.

Varðandi aðra spurningu hv. þingmanns þá held ég að þetta snúist ekki um hvað ég tel mögulegt heldur hvað sveitarfélögin, umsjónarstofnanir friðlýstu svæðanna og aðrir hagaðilar telja mögulegt. Ég vil byggja ákvörðunina á samráði við þau og þeim ábendingum sem koma fram í skýrslunni sem ég minntist hér að ofan. Þessu tengt er líka mikilvægt að benda á að undanfarna mánuði höfum við í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu unnið í nánu samráði við stofnanir ráðuneytisins að greiningu á stofnanaskipulagi ráðuneytisins.

Hvatar þessarar vinnu eru einkum tvenns konar. Annars vegar eru það umfangsmiklar áskoranir sem blasa við okkur á sviði loftslags- og umhverfismála sem kalla á öflugri stofnanir sem og áform stjórnvalda um fækkun og eflingu stofnana. Hins vegar er horft til mikilvægra stefnumiða eins og rafrænnar umbreytingar, betri þjónustu, fjölgunar starfa á landsbyggðinni, fjölgun starfa óháð staðsetningu og uppbyggingar og þróunar eftirsóknarverðra vinnustaða fyrir öflugt fagfólk. Þessi atriði skipta sköpum við að greina þá möguleika sem felast í þjóðgarði á miðhálendinu — og annars staðar á landinu — og hversu stór hann verður.

Og af því að hv. þingmaður tekur þetta mál upp þá er það alveg skýrt og afstaða mín er alveg skýr og tengist því sem stendur í stjórnarsáttmálanum um samráð við heimamenn að það fer langbest á því þegar nærsamfélagið er hvað öflugast og hefur forystu um viðkomandi svæði. Við skulum ekki bara tala um þjóðgarð á hálendinu, Ég var núna bara að koma af einstaklega ánægjulegri stund þar sem við vorum að vígja gestastofu í Snæfellsjökulsþjóðgarði. Það er alveg skýrt dæmi um það hvernig er hægt að gera hlutina einstaklega vel. Það var einstaklega ánægjulegt að vera þarna á föstudaginn þar sem var mikill fjöldi fólks úr samfélaginu að fagna því að við vorum að opna þessa glæsilegu gestastofu. Ég lít svo á að þetta sé gott fordæmi fyrir okkur til að vinna með. Þess vegna hef ég flutt lögheimili Vatnajökulsþjóðgarðs í Vatnajökulsþjóðgarð, á Höfn í Hornafirði, vegna þess að ég taldi það ekki eiga heima á höfuðborgarsvæðinu og reyndar furðuleg hugmynd að það hafi verið á höfuðborgarsvæðinu. Það liggur fyrir að við munum hafa þá stefnu að þjóðgarðinum á Þingvöllum verði stýrt frá Þingvöllum, Snæfellsjökulsþjóðgarði stýrt frá Snæfellsnesi og Vatnajökulsþjóðgarði frá Vatnajökulssvæðinu.

Hv. þingmaður spyr að endingu um það hvort einhver þeirra svæða sem felld voru úr rammaáætlun sem virkjunarkostir á 152. löggjafarþingi verði friðlýst innan þjóðgarðs á hálendi Íslands, og ef svo er, hver. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að einhver þeirra svæða sem felld voru úr rammaáætlun eru á miðhálendinu, svo sem vatnsaflskosturinn Hverfisfljótsvirkjun og jarðhitakostirnir Sköflungur og Sandfell sunnan Torfajökuls En aftur vil ég vísa á mikilvægi samráðs og samtals á milli þeirra sem þetta snertir. Ef það er vilji og samkomulag um að ákveðin svæði verði friðlýst sem stök svæði eða hluti af þegar friðlýstum svæðum eða þjóðgörðum þá er sjálfsagt mál að vinna að því. Ég held að reynslan kenni okkur að það er mjög mikilvægt að vinna með hagaðilum og þeim sem eru á viðkomandi svæðum ef góður árangur á að nást.