Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

staða og framvinda hálendisþjóðgarðs.

385. mál
[18:48]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka aftur bæði hv. málshefjanda, Jódísi Skúladóttur, og hv. þm. Orra Páli Jóhannssyni fyrir þeirra innlegg og frumkvæði að því að ræða þessi mál sem ég tel að hafi verið mjög mikilvægt. Ég ætla ekki að segja hér, virðulegur forseti, að ég hafi ekki heyrt neina gagnrýni á hugmyndir um þjóðgarða og friðlýst svæði í embætti mínu sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra en það sem ég finn er að sú nálgun að nærsamfélagið sé með, getum við sagt, hönd á stýri, — þó svo að auðvitað fleiri komi að, þjóðgarður heitir auðvitað þjóðgarður því að hann er handa þjóðinni en þú getur ekki gert þetta nema það sé sátt í nærsamfélaginu — mér finnst vera sátt um þá nálgun.

Gallinn við samtal og samráð er að þetta tekur alltaf svolítinn tíma. Það er miklu auðveldara að ákveða þetta einn. Maður er kannski kominn með einhverja niðurstöðu hjá sjálfum sér en það er bara ekkert sjálfgefið að það séu allir þar. Síðan er það nú oftar en ekki þannig þegar samtal á sér stað og þegar viðkomandi aðilar finna að það eru heilindi á bak við það og viðkomandi aðilar finna að það er hlustað og þeir hafðir með í framtíð þess svæðis sem þeir telja til síns nærsvæðis að þeir komast að niðurstöðu í erfiðum málum. Það verður spennandi t.d. að sjá niðurstöður starfshóps sem er að skoða bæði þjóðgarðamál og orkumál á Vestfjörðum. Það er ekki langt í niðurstöðu þar. Það er annar hópur sem skoðar orkumálin og sömuleiðis líka það sem snýr að náttúruvernd í Vestmannaeyjum. Það er ekkert leyndarmál að þar eru heimamenn sem stýra þeim hópum. En auðvitað eru miklu fleiri sem koma að því, enda er það (Forseti hringir.) alveg ljóst að þjóðgarðar, og raunar friðlýst svæði líka, heita þjóðgarðar af ástæðu. Auðvitað verða fleiri að koma að. (Forseti hringir.)

Það er ánægjulegt að heyra tóninn í hv. þingmönnum hér og ég vona að við höfum tækifæri til að ræða þetta betur í nánustu framtíð.