Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[14:59]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Samþykkt þessa frumvarps er mikilvæg fyrir fólkið í landinu því að með því aukum við skýrleika laga um almannatryggingar og aðgengi fólks að lögunum, sem aftur ætti að draga úr mistökum við útreikning og afgreiðslu réttinda og greiðslna almannatrygginga sem gagnast jú öllum örorku- og ellilífeyrisþegum. Samþykkt frumvarpsins er því líka mikilvægur liður í að bregðast við ábendingum frá Ríkisendurskoðun og umboðsmanni Alþingis á undanförnum árum. Þá er frumvarpið mikilvægt því að hér færum við réttindaávinnslu í örorkulífeyriskerfinu nær nútímanum með frekari ívilnunum fyrir yngra fólk og fólk sem búið hefur tímabundið erlendis.

Ég vil að lokum þakka hv. velferðarnefnd fyrir góða vinnu við vinnslu frumvarpsins og fagna því sérstaklega að við skyldum sameinast um mikilvæga tillögu minni hlutans um að fella út skerðingar framfærsluuppbótar til einhleypra örorkulífeyrisþega sem njóta mæðra- og feðralauna.