Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

dómstólar.

893. mál
[15:08]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé mjög sérstakt frumvarp á ferðinni hvað það varðar að auka hagkvæmni og stuðla að meiri samvinnu og samlegð en er í dag, eins og vitnað er í skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu dómstólanna. Ég tel að það sé miklu einfaldara að auka samvinnu milli núverandi dómstóla þannig að hægt sé að flytja mál á milli þeirra embætta sem nú eru á landsbyggðinni. Þessi litlu embætti eins og á Ísafirði, Sauðárkróki, Borgarnesi og víðar eru mjög mikilvægar stofnanir úti á landi. Að þær verði ekki sjálfstæðar stofnanir er bara upphafið að endi þeirra, svo einfalt er það. Ég held að mjög mikilvægt sé að fara að þessu með mun vægari hætti, þ.e. að auka samvinnu milli allra dómstólanna í dag, frekar en að steypa öllu í eitt mót, einn dómstól og eina stofnun sem mun gera það að verkum að við næstu hagræðingarkröfu í fjárlögum verður farið að skera niður úti á landi.

Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Var ekkert skoðað að hafa lagaheimildir þar sem hægt væri að flytja mál á milli dómstóla og dómarar við önnur embætti tækju við málum, eins og frá höfuðborgarsvæðinu, sem er miklu vægara úrræði og myndi ekki kalla á þessar veigamiklu breytingar sem hér er verið að gera? Ég vil minna á að núverandi héraðsdómstólakerfi er gríðarlega mikilvægt. Það var sett með löngum aðdraganda, m.a. vegna álits frá mannréttindanefnd Evrópu og frægs hæstaréttardóms frá 9. janúar 1990 sem olli mikilli umræðu meðal lögfræðinga og miklum fræðiskrifum. Ég minnist sérstaklega einnar greinar eftir þekktan lögmann hér í bæ og fyrrum hæstaréttardómara sem hét „Gott er að eiga góðan að“. Ég tel að þetta frumvarp sé ekki til hagsbóta fyrir landsbyggðina og þau opinberu störf sem þar eru og eru innan dómsýslunnar.