Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

dómstólar.

893. mál
[15:18]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þingflokkur Framsóknar setti fyrirvara við þetta mál og leggur mikla áherslu á mikilvægi þess að frumvarpið verði raunverulega til þess fallið að styrkja héraðsdómstólana í hverju héraði fyrir sig. Efla þarf starfsemi þeirra og tryggja að störf við hvern dómstól haldist svo að sérþekking á svæðinu haldist óröskuð. Starfsstöðvar á landsbyggðinni eru mikilvægar fyrir réttindi almennings um greiðan aðgang að dómstólum, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Einnig þarf að líta til þess að án starfsstöðva héraðsdóms á landsbyggðinni er hætta á að lögmenntaðir einstaklingar hafi ekki kost á starfi við hæfi í tengslum við dómstólakerfið utan höfuðborgarsvæðisins. Það á sérstaklega við um þá sem hafa aflað sér málflutningsréttinda og eru með lögverndað starfsheiti sem lögmenn.

Settur er mikill fyrirvari við b-lið 11. gr. frumvarpsins sem breytir 33. gr. laganna, en þar er dómstjóra fengið ótakmarkað vald til að úthluta málum til dómara óháð starfsstöð og aðsetri dómara. Þetta er sett fram undir því flaggi að jafna vinnuálag dómaranna en úthlutun málanna til dómara varðar ekki einungis þá sjálfa eða dómstólinn. Þetta getur haft talsvert neikvæð áhrif á aðila máls, t.d. málflytjendur og saksækjendur. Hagur aðila máls þarf alltaf að vera hafður að leiðarljósi, enda snýst dómskerfið um rétt aðila til að fá úrlausn mála sinna. Einstaklingurinn er ávallt í fyrirrúmi þó svo að þessi breyting kunni að vera til hægðarauka fyrir dómstólinn og reka megi mál á starfsstöð héraðsdóms utan þeirrar varnarþings sem málið skal rekið samkvæmt V. kafla laga um einkamál og VI. kafla laga um sakamál.

Hættan er á að ofangreind heimild verði ekki til hægðarauka fyrir þann lögmann sem hefur starfsstöð í viðkomandi varnarþingi. Kostnaður við ferðalög vegna málflutnings við héraðsdóm er líklegur til að falla á skjólstæðinginn. Því er lögð áhersla á að lögmenn fái útlagðan ferðakostnað greiddan úr ríkissjóði en ekki úr vasa skjólstæðingsins þar sem þessi ákvörðun er tekin, virðist vera, einhliða af hálfu dómstjóra héraðsdóms. Einnig er lögð áhersla á það að málsgrein verði bætt við b-lið 11. gr. þar sem komi fram að meginreglur réttarfars gildi í hvívetna við úthlutun mála og að dómstólasýslunni verði falið að setja skýrar reglur um úthlutunina og til hvaða sjónarmiða skuli horft til.

Þá gerum við í Framsókn athugasemdir við ákvæði 13. gr. frumvarpsins, sem breytir 36. gr. dómstólalaga. Í 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir nýju ákvæði þar sem dómara eru gefnar nokkuð frjálsar hendur með á hvaða þingstað mál er tekið fyrir. Einu skorðurnar sem settar eru við þá ákvörðun er mat dómarans á því hvar þyki heppilegt að taka málið fyrir. Þó það geti vissulega horft til hægðarauka og tímasparnaðar að hafa sveigjanleika með staðsetningu á fyrirtöku mála fyrir dómstólinn sjálfan þá verður að reisa ákveðnar skorður við ákvarðanatöku af þessu tagi af hálfu dómara. Þau sjónarmið sem ráða för við slíkt mat dómara á því hvað teljist heppilegur þingstaður þurfa að vera skýr og túlkuð með þröngum hætti. Má þar nefna að taka verði tillit til búsetu og/eða staðsetningar bæði aðila máls og lögmanna og hvort um sé að ræða umfangsmikið mál eða einfalt, hvort mál verði tekið fyrir rafrænt og þess háttar.

Þá teljum við að skýra þurfi ákvæði 13. gr. betur en gert er í núverandi frumvarpi og greinargerð þess. Þar er nauðsynlegt að tekið verði fram að heimild dómara sé takmörkuð af varnarþingsreglum laga um einkamál og laga um sakamál. Þá er gerð athugasemd við að greinin sjálf veitir töluvert rýmri heimild en markmið hennar er samkvæmt greinargerðinni. Mikilvægt er að skýrt sé í ákvæði frumvarpsins að hver og einn á rétt á því að fá úrlausn sinna mála frá sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Hlutverk dómstóla er að taka fyrir úrlausnarefni og kveða upp dóma um réttindi og skyldur hins almenna borgara. Málarekstur fyrir dómstólum á ekki að stjórnast af hagræðissjónarmiðum viðkomandi héraðsdómara heldur að leiðarljósið sé hagur hins almenna borgara hvar á landinu sem hann býr.

Virðulegi forseti. Við viljum ítreka mikilvægi þess að sérþekking og störf héraðsdómstólanna haldist í hverju héraði og að ekki komi til uppsagna, fækkunar á störfum og að byggðasjónarmið verði virt við þessa breytingu. Með frumvarpi þessu eru blikur á lofti hvað varðar brottfall sérþekkingar og starfa utan höfuðborgarsvæðisins. Einnig er það talið ómakleg staða til framtíðar ef umræddar breytingar á lögum um dómstóla verði til þess fallnar að aðili máls eða lögmaður hans neyðist til að ferðast langt frá sínu nærsamfélagi til þess að fá úrlausn mála sinna. Um er að ræða stjórnarskrárvarinn rétt sem Ísland hefur einnig staðfest með lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu. Þar bendi ég aftur á 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en þar kemur fram að hver og einn eigi rétt á að „halda uppi vörnum sjálfur eða með aðstoð verjanda að eigin vali“. Þar þarf að hafa í huga að ákvörðun um hvar skuli halda þinghald á ekki að vera til óhagræðis fyrir málsaðila.

Virðulegi forseti. Framsókn og ríkisstjórnin í heild hefur ítrekað fjallað um jafnan rétt til búsetu og í því felst m.a. að einstaklingar þurfi ekki að ferðast langar leiðir til að sækja nauðsynlega þjónustu, en málarekstur fyrir dómstólum fellur undir þá skilgreiningu. Við viljum að það sé haft í huga við meðferð þessa máls og ef það verður að lögum.