Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

dómstólar.

893. mál
[15:28]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar sitt. Mér finnst gott að heyra það sem hún var að segja, þetta hljómar eins og músík í mín eyru. Ég tel að það séu hagsmunir íbúa á landsbyggðinni að fá að hafa þær stofnanir og þá dómstóla sem þegar er búið að skipa í lög og hafa verið frá upphafi héraðsdómstólakerfis landsins frá því það var sett á laggirnar upp úr 1990. Þetta kerfi hefur reynst alveg gríðarlega vel. Þessar stofnanir eru sýnilegar á landsbyggðinni og þarna eru mikilvægir embættismenn sem hafa sinnt ýmsum öðrum þjóðþrifaverkum á sínu svæði. En ég tel líka að þetta séu hagsmunir íbúa á höfuðborgarsvæðinu — að mál þeirra verði send út um allar koppagrundir á landsbyggðina til afgreiðslu á starfsstöðvum þar finnst mér bara vera röng nálgun. Miklu frekar ættu dómararnir að fara á milli héraða og dæma þar sem mál eru til meðferðar.

Ég tel að þetta frumvarp sé það gallað að ekki sé hægt að gera nægilegar breytingar á því þannig að það geti orðið að lögum. Ég tel að það þurfi allt aðra nálgun og þá með hagsmuni landsbyggðarinnar og landsbyggðarkjördæmanna að leiðarljósi. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Sér hún möguleika á því að hægt sé að gera breytingar á þessu frumvarpi með þeim hætti — grundvallarbreytingar sem ég tel mikilvægar — að hægt verði að gæta hagsmuna hinna dreifðu byggða, íbúa á landsbyggðinni, og að þessi embætti fái enn þá að lifa og dafna með auknu samstarfi sín á milli til að auka hagræðingu við rekstur þannig dómarar geti farið á milli héraða? Er þetta ekki bara of stórt mál til breytingar? Ég sé ekki að hægt sé að koma með litla breytingartillögu og breyta þessari nálgun. Það getur vel verið að menn með reiknistokk hjá Ríkisendurskoðun hafi fundið það út að óhagkvæmt sé að búa úti á landi. Það má vel vera, en allar sjávarbyggðirnar eru þar og þar verður stór hluti verðmætasköpunar íslensks samfélags. Það er kannski spurning um að flytja Ríkisendurskoðun út á land svo þau geti séð hvaða verðmæti verða til í frumatvinnugreinunum þjóðarinnar.