Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

dómstólar.

893. mál
[15:31]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem íbúi á landsbyggðinni og þingmaður kjördæmis sem tilheyrir landsbyggðinni, Suðurkjördæmi, þá er ég náttúrlega hlynnt því að við færum stofnanir út á landsbyggðina í auknum mæli. Ég vil sjá þá þróun. Ég vil ekki að við höldum því áfram að landsbyggðin þurfi endalaust að sækja sér nauðsynlega þjónustu til höfuðborgarsvæðisins. Að því sögðu þá veit ég líka að það er ekki sanngirnissjónarmið í því að höfuðborgarbúar eða lögmenn á höfuðborgarsvæðinu þurfi jafnvel að sækja þinghöld á Vestfjörðum eða fyrir austan. En ég vil að það sé staðinn vörður um það hvernig við gætum að byggðasjónarmiðum með þessari breytingu sem dómsmálaráðherra boðar. Við höfum gert viðamiklar breytingar í nefndum á ýmsum málum sem hafa komið hingað inn og ég treysti á það að sérstaklega mínir fulltrúar í allsherjar- og menntamálanefnd taki þetta mál föstum tökum og standi vörð um byggðasjónarmiðin, því það er það sem skiptir máli. Við eigum að efla störf og starfsemi ríkisstofnana á landsbyggðinni en ekki draga úr vægi þeirra. Svo sannarlega held ég að það sé hægt að gera breytingar á þessu frumvarpi til þess að gera það skýrara og gæta að þessum sjónarmiðum. Standa þarf vörð um það inni í nefnd og koma þessu vel frá sér.