Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

dómstólar.

893. mál
[15:33]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér er um mjög sérstakt mál að ræða, sameiningu héraðsdómstóla, og ég tel að við ættum ekki að samþykkja þetta mál á þessu vori. Ég tel að breytingarnar séu ekki þess eðlis að þær komi til móts við hagsmuni landsbyggðarinnar og mikilvægi þess að stofnanir séu úti á landi. Hér er raunverulega verið að leggja til að lagður verði niður dómstóllinn á Ísafirði, Héraðsdómur Vestfjarða, lagður niður Héraðsdómur Vesturlands og lagður niður Héraðsdómur Norðurlands vestra — þetta eru allt dómstólar í mínu kjördæmi — svo ekki sé minnst á dómstólinn á Egilsstöðum, á Selfossi og á Akureyri. Hér er verið að steypa öllu í einn dómstól, einn héraðsdómstól, eitt embætti með aðsetur í Reykjavík, starfsstöð í Reykjavík sem stjórnað er í Reykjavík og frá Reykjavíkurvaldinu. Ég tel að andsvör mín og svör hæstv. dómsmálaráðherra og svör hv. þm. Hafdísar Hrannar Hafsteinsdóttur hafi varpað ágætisljósi á þau sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri í þingsal og þau eru að þetta frumvarp gangi gegn hagsmunum hins almenna borgara í landinu og þá þjónustu sem hann á rétt á frá dómskerfinu í heimabyggð. Þá er ég ekki bara að tala um úti á landi heldur líka á höfuðborgarsvæðinu þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir eftirfarandi í b-lið 11. gr., með leyfi forseta:

„Dómstjóri getur úthlutað málum til dómara óháð því á hvaða starfsstöð Héraðsdóms dómari á fast sæti eða hefur aðsetur og óháð því á hvaða starfsstöð mál eru rekin.“

Þetta þýðir að aðilar að máli, aðilar sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu, eru kannski sendir út á land, háð því á hvaða starfsstöð málið er rekið. Mál getur verið rekið úti á landi sem átti raunverulega heima hér á höfuðborgarsvæðinu, er þjónusta við borgarana þar. Þetta gengur gegn hagsmunum íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Ég tel líka að með því að leggja niður embætti — við þekkjum sögurnar af því þegar sameinuð eru embætti. Við erum það fámennt samfélag að raunverulega væri hægt að sameina nánast allt eða miklu meira, en það er almennt dýrt að reka lítið samfélag með svona stórri yfirbyggingu eins og við erum með. Þessi ríkisstjórn hefur ekki gengið á undan með góðu fordæmi með því að fjölga ráðuneytum sem er gríðarlega kostnaðarsamt en síðan vill hún ráðast á landsbyggðina með því að sameina stofnanir þar. Jú, þau segja að þetta eigi að efla landsbyggðina. Af hverju? Til að slá á þessi rök landsbyggðarþingmanna og landsbyggðarinnar gagnvart því að það sé verið að sameina. Hæstv. dómsmálaráðherra sagði í ræðu sinni þegar ég spurði hann um úrskurðarnefndirnar að það ætti jafnvel að flytja verkefni úrskurðarnefndanna til sýslumannsembættanna. Ég veit ekki betur en að hæstv. dómsmálaráðherra sé með frumvarp fyrir þinginu eða ætli að leggja það fram, um að sameina öll sýslumannsembættin í eitt embætti. Þá er Ísland orðið ein sýsla. Það er mjög sérstakt því að sýsla þýðir hluti eða landshluti. Ef Ísland er ein sýsla þá er það væntanlega hluti af einhverju öðru.

Ég held að þetta sé ekki frumvarp sem eigi að ná fram að ganga og ég vonast til þess að landsbyggðin og sveitarstjórnarmenn úti á landi, sem er umhugað um störf úti á landi og embætti úti á landi, skili umsögnum sem varpi ljósi á það. Ég treysti á það að Framsóknarflokkurinn, sem er öflugur í Norðvesturkjördæmi, á 1. þingmann þar, og líka í Norðausturkjördæmi og hefur mikil ítök í sveitum landsins og í hinum dreifðu byggðum, komi í veg fyrir það sem hér er að eiga sér stað innan dómskerfisins, að skella öllu í sama mót, vegna þess að þróunin mun bara verða á einn veg. Það verður aðhaldskrafa í fjárlaganefnd og þá verður farið að skera niður í hinum dreifðu byggðum. Það byrjar smátt og smátt og mun gerast yfir nokkurra ára tímabil og enda með því að þessar starfsstöðvar, eins og talað er um í 1. gr. frumvarpsins, verða lagðar niður. Þá er hægt að gera það með einföldum hætti. Þær enda með því að verða bara skel og svo kemur beiðni um lagabreytingu þar sem Alþingi þarf að staðfesta orðinn hlut.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla ítarlegar um þetta frumvarp en ég tel að það sé merki um ákveðna hættu sem landsbyggðin þarf að bregðast við og af fullum þunga. Ég treysti því að þingmenn landsbyggðarinnar muni gæta hagsmuna landsbyggðar í þessu máli eins og þeim ber skylda til.