Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

856. mál
[15:57]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir leggja þetta mál fram hér því að þetta er auðvitað alveg ótrúlega mikilvægt mál. Um leið og þetta er svona mikilvægt er þetta því miður mjög falið vandamál í samfélaginu okkar. Ef maður setur sig bara í stöðu þolanda sem þarf að kæra maka sinn eða barn sem þarf að kæra pabba sinn þá er erfiðlega með farið. Og að lesa um að 1.100 heimilisofbeldismál hafi verið tilkynnt lögreglu á síðasta ári er auðvitað bara grafalvarlegt, að annan hvern dag komi kona á Landspítalann með líkamlega áverka sökum heimilisofbeldis, þetta eru sláandi tölur. Við erum auðvitað ekki bara að upplifa það að verða vitni að heimilisofbeldi inni á heilbrigðisstofnunum, maður getur sjálfur, prívat og persónulega, upplifað ofbeldi bara hjá næsta nágranna eða kennarar í skóla skynjað að ofbeldi sé að eiga sér stað inni á heimilum og síðan auðvitað bara félagsþjónusta sveitarfélaga, barnaverndarnefndir, við erum að upplifa þetta úti um allt. Síðan er auðvitað þessi mikla breyting á samfélaginu okkar sem er að orsaka það að fólk flyst hingað til lands frá löndum þar sem konur eru t.d. lítils metnar, má segja, og eiga kannski miklu erfiðara heldur en íslenskar konur með að tilkynna slíkt ofbeldi. Sjáum við fyrir okkur að geta náð t.d. utan um konur af erlendum uppruna sem verða fyrir heimilisofbeldi?