Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

856. mál
[16:02]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svar hér. Greining og það að gera sér grein fyrir að ofbeldi sé að eiga sér stað er eitt. Eins og við höfum verið að nefna hér snýr ofbeldi líka bara að börnum og vonandi ná farsældarfrumvörpin að fanga þetta með einhverjum hætti; samskipti heilbrigðisstofnana, skóla og félagsþjónustu og barnaverndarnefnda, að þau nái utan um þennan málaflokk til að verja börnin fyrir þessu ofbeldi.

Eitt er að greina en annað er síðan hvernig vinnum með fólki eftir að búið er að átta sig á því að ofbeldi sé til staðar. Við vitum um nokkur úrræði, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu en líka úti á landi. Ég þekki kannski best til úrræðis sem er á Selfossi og heitir Sigurhæðir en þangað leita konur eða einstaklingar sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi m.a. En einhverra hluta vegna er aldrei hægt að ná utan um það hvar svona stofnanir eiga heima. Er þetta félagslegt vandamál? Eru þetta lögreglumál sem eiga heima hjá dómsmálaráðuneytinu? Eða er þetta heilbrigðismál af því að fólk er bara orðið andlega veikt? Þannig að hver á að fara með þetta? Getum við búið til eitthvert þannig kerfi að það sé ekki verið að svelta þessar stofnanir sem eru þó af veikum mætti að rembast við að reyna að koma í veg fyrir ofbeldi eða að aðstoða í það minnsta þá einstaklinga sem hafa orðið fyrir ofbeldinu? Einhvern veginn hef ég upplifað það þannig að það sé verið að vísa fólki frá Pontíusi til Pílatusar.