Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[16:26]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir hans ræðu. Við erum auðvitað að tala um málaflokk sem skiptir okkur miklu máli, andleg líðan ræður nánast öllu um afdrif einstaklinga. Við sjáum fólk verða undir vegna þess að það fær ekki þá þjónustu sem það þyrfti á að halda. Hluti af því getur verið, af því að við vorum að ræða um ofbeldismál áðan, þetta er allt samhangandi, að ef fólk verður fyrir ofbeldi geti það beðið sálrænan skaða og leiðist börn á unga aldri út í vímuefnanotkun þá hefur það sömuleiðis veruleg áhrif á andlega líðan fólks til lengri tíma. Ég er nú ekki búinn að ná utan um þetta plagg en mun auðvitað sem hluti af velferðarnefnd fjalla um það, þetta er plagg númer tvö en fyrsta plaggið kom 2016. Getur hæstv. ráðherra í tveggja mínútna máli kannski rakið það hvernig hefur til tekist, hvort hann sé sáttur við þá niðurstöðu sem hefur náðst eftir að sú aðgerðaáætlun var lögð fram? Erum við á réttri braut? Finnst okkur við hafa gengið veginn fram þannig að við skiljum sátt við þessa aðgerðaáætlun sem nú er í gildi og förum glöð inn í næstu?