Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[16:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er dálítið áhugavert plagg, ágætisframtíðarsýn og ýmislegt svoleiðis, en við búum við það, eins og kom fram í mati Ríkisendurskoðunar, að einungis þrjár aðgerðir í fyrri áætlun komust til framkvæmda á réttum tíma. Ríkisendurskoðun telur að heildarárangur aðgerðaáætlunar hafi verið ófullnægjandi þar sem mikilvæg markmið náðust ekki. Það má þannig velta því fyrir sér hvað það kostar að klára gömlu aðgerðaáætlunina. Í öðru lagi þarf ekkert svona skjal, það er í alvörunni óþarfi, af því að það er hægt að setja hana í stefnu stjórnvalda samkvæmt fjármálaáætlun. Auðvitað er það nákvæmara að gefa þetta út með svona þingmáli, þingsályktunartillögu, en þá ætti hún að vera svipuð og samgönguáætlun sem er líka þingsályktunartillaga með kostnaðar- og ábatagreiningu. Það er að vísu ekki mikil ábatagreining þar, hún ætti að vera það. Strangt til tekið samkvæmt lögum um opinber fjármál þá þarf ekki að vera kostnaðarmat og ábatagreining í þingsályktunartillögum, bara stjórnarfrumvörpum, en hérna er verið að tala um sérstakar aðgerðir sem munu kosta ýmislegt, þetta er ekki bara um að hverju á að stefna eða eitthvað svoleiðis sem verður síðan lagt fram í einhverju þingmáli. Hérna er verið að tala um raunverulegar aðgerðir. Það á að mínu mati að fara eftir 20. gr. laga um opinber fjármál, um stefnumótun stjórnvalda, og kostnaðarmeta, segja okkur í þingsályktunartillögunni, nákvæmlega eins og í samgönguáætlun, hvað þetta kostar. Ég hef áhyggjur af því að þegar verið er að leggja fram svona skjal og ráðherra segir að þetta verði ekki allt í fjármálaáætlun. Hvað er þá verið að segja okkur með þessu? Hvað af þessu er þá ekki fjármagnað? Hvað af þessu er þá bara orðin tóm — í alvöru? Þess vegna segi ég: Þetta er tilgangslaust. Það er hægt að segja þetta allt í fjármálaáætlun og og segja nákvæmlega þar hvað það kostar.