Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[16:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni og ég get samsinnt honum að einhverju marki en ég er þó ekki alveg sammála að þetta sé — ég veit ekki hvaða orðalag hv. þingmaður notaði, en ég get tekið undir það og þar erum við sammála að það eigi að fylgja kostnaðarmat og ábatagreining. Við eigum að fara eftir þessum stefnumarkandi ramma sem lög um opinber fjármál eru, bæði í frumvörpum og í aðgerðaáætlunum sem er settar fram í þingsályktunartillöguformi þar sem þingið raunverulega tekur við og fer yfir. Þess vegna segi ég að þessi aðgerðaáætlun er mikilvæg eins og hún er fram sett sem framkvæmd á þeirri stefnu sem þingið er búið að fela ráðherra að fylgja. Það er mjög mikilvægt að um þessar 27 aðgerðir sem falla undir fjögur meginmarkmið og eru vísir í átt að stefnunni sé fjallað um í þinginu og í hv. velferðarnefnd, hún fái umsagnir og bæti þá við eða dragi annað fram eftir atvikum. Það er bara mjög mikilvægt. Þetta sá ég í gegnum þær umsagnir sem komu til að fylgja eftir þessari sýn. Ég ætla að fara þá leið að brjóta þetta upp, byrja á þessu og kynna þetta kostnaðarmat. Það er auðvitað mjög gróft og unnið í heilbrigðisráðuneytinu, það er auðvitað ekki nóg, þetta þarf að fara alla leið í ferlinu og inn í fjármálaráðuneyti, helst þarf að fylgja ábatagreining. Ég er svo sem ekkert í vafa um hvað kæmi út úr slíkri ábatagreiningu. Það yrði alltaf mikill ávinningur af þeim aðgerðum sem hér eru settar fram. Vonandi sjáum við það til framtíðar að það sé hægt að taka þingsályktunartillögur í þetta ferli líka, þar erum við algerlega sammála. En ég er ekki sammála hv. þingmanni um að þetta plagg sé ekki gott. Ég skal fara yfir þessar sex aðgerðir, ég veit ekki hvort ég næ því á mínútu, sem við erum að fara í á þessu ári.