Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[16:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil í stuttri ræðu í fyrri umræðu um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023–2027 fjalla aðeins bara um fyrsta kaflann sem tekur á málefnum barna. Ég vil í því sambandi taka undir umsögn Barnaheilla í samráðsgáttinni en þar kemur fram og er gagnrýnt, líkt og fram hefur komið hér hjá hæstv. ráðherrum og hv. þingmönnum í þessari umræðu, að í síðustu aðgerðaáætlun voru aðeins þrjár aðgerðir af 18 fyrir árin 2016–2020 sem komu til framkvæmda á réttum tíma. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga, það er ekki nóg að setja fram fallega áætlun, draga fram áherslur sem við sannarlega getum öll fallist á að eru meira og minna mikilvægar en síðan fara þær ekki í framkvæmd af einhverjum ástæðum. Þrjár af átján er ekki góður árangur og ég vil taka undir hvatningu Barnaheilla til ráðuneytisins um að tryggja að sú aðgerðaáætlun sem við erum að ræða hér verði framkvæmd að fullu.

Ég fagna þeirri umræðu sem var hér áðan um fjármögnun vegna þess að það er afskaplega mikilvægt að meta hvað svona áætlanir kosta. Það er mikilvægt að hafa í fimm ára fjármálaáætlun góðar áætlanir sem eru vel skilgreindar með markmiðum og aðgerðaáætlunum og fjárhagslegu mati en ég get ekki tekið undir það að þetta plagg sem við ræðum hér sé þar með óþarft. Ég held að það sé gott að við í hv. velferðarnefnd fáum plaggið til umræðu og getum þá velt hlutunum fyrir okkur og hvernig við getum séð til þess að framkvæmdarvaldið framkvæmi þá þær áætlanir sem samþykktar verða.

Það er afskaplega mikilvægt, forseti, að fjárfesta ríkulega í þjónustu við börn. Það er fjárfesting til framtíðar og það er erfitt að meta til fjár að gæta að geðheilbrigði og líðan barna og það þarf að sjá til þess, líkt og Barnaheill benda á, að aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og sálfræðiþjónustu sé óháð efnahag, þannig verður þessi þjónusta að vera, gjaldfrjáls fyrir börn og ekki bara börn sem sjálf glíma við geðræna kvilla heldur einnig fyrir börn sem eru aðstandendur foreldra, sem sagt börn fólks með langvinnan alvarlegan geðheilbrigðisvanda, því að börn sem búa á heimili með fólki með alvarlegan geðheilbrigðisvanda þurfa aðstoð og hún þarf að vera gjaldfrjáls. Ég vil taka undir með Barnaheillum þegar þau draga þetta fram. Það er talað um það í aðgerðaáætluninni, í aðgerð 1.A.5., að styðja skuli börn sem eru aðstandendur fólks með langvinnan alvarlegan geðheilbrigðisvanda en hins vegar, líkt og Barnaheill benda á, er þessi aðgerð með öllu óútfærð og það veldur áhyggjum.

Það er mönnunarvandi í öllu heilbrigðiskerfinu. Það er líka mönnunarvandi þegar kemur að geðheilbrigðismálum og það er eitthvað sem ekki er hægt að líta fram hjá þegar settar eru fram aðgerðaáætlanir í geðheilbrigðismálum og það þarf líka að fylgja hvernig eigi að taka á þeim vanda til að sjá til þess að aðgerðaáætlunin gangi upp. Það þarf fjármagn og það þarf mannskap til að sinna þessum mikilvægu verkefnum.

Við ræddum í haust, frú forseti, um skýrslu um áfallastjórnun stjórnvalda í Covid-19 og í þeirri skýrslu kemur m.a. fram að á árinu 2022 hafi einungis 27% íslenskra stúlkna í 10. bekk talið að staðhæfingin „ég er ánægð með líf mitt“ eigi við sig. Þetta er sláandi niðurstaða sem við höfum auðvitað talað um hér áður í þingsal. Það er mun lægra hlutfall stúlkna en drengja sem metur andlega heilsu sína góða eða mjög góða samkvæmt niðurstöðunum. Hjá stúlkum í 9. bekk fór hlutfallið úr 62% á árinu 2018 niður í 44% árið 2021. Mun minni lækkun verður hjá drengjum á sama tíma þó svo að líðan þeirra hafi líka versnað. Sama mynstur kemur fram þegar skoðað er hlutfall barna sem segja að það eigi mjög vel við um sig að þau séu hamingjusöm. Hamingjusömum drengjum og stúlkum hér á landi virðist fækka umtalsvert. 57% drengja í 10. bekk voru hamingjusamir árið 2018, borið saman við 49% árið 2022, og hjá stúlkum lækkaði hlutfallið úr 40% í 28% á sama tíma.

Þetta eru mjög alvarlegar vísbendingar um að andleg heilsa íslenskra barna, sér í lagi stúlkna, fari hratt versnandi. Í þessu sambandi er hægt að rifja upp að samkvæmt íslensku æskulýðsrannsókninni fundu 64% stúlkna í 10. bekk fyrir depurð vikulega eða oftar á árinu 2022, samanborið við 48% árið 2018. Aukinn kvíði er sömuleiðis áhyggjuefni, 77% stúlkna í 10. bekk finna fyrir kvíða vikulega eða oftar, samanborið við 38% drengja. Það er vaxandi munur á milli kynja í þessum efnum og hann fer vaxandi og allt frá árinu 2007. Vanlíðan stúlkna hefur farið hratt versnandi síðastliðin fjögur ár og munur á líðan drengja og stúlkna vex mikið á sama tíma. Ég hef áður sagt að þessar niðurstöður séu svo sláandi að þær ættu að leiða til stórátaks í geðrækt hjá ungu fólki og beina þarf sjónum sérstaklega að unglingsstúlkum og ungum konum í þessu sambandi. Eitt ágætt skref í áttina að þessu er skólaheilsugæsla í framhaldsskólum sem hæstv. ráðherra segir að sé fjármögnuð aðgerð sem er tiltekin hér, 1.A.4. í þessari aðgerðaáætlun. Ég fagna því sannarlega og ég held að það skipti miklu máli að í skólunum séu fagmenn sem unga fólkið getur leitað til og börnin og unglingarnir geta leitað til og það sé þá hægt að vísa þeim og leiðbeina þeim réttan veg.

Í september mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um að fela mennta- og barnamálaráðherra að setja fram áætlun um hvernig tryggja megi að í grunn- og framhaldsskólum starfi félagsráðgjafar sem nemendur geti leitað til. Það er líka mjög mikilvæg aðgerð og hún er undirbyggð með fjölda rannsókna sem hafa sýnt hvað það er mikilvægt að taka snemma á málum og það er þá hægt að gera, eins og ég sagði áðan, ef í skólanum eru fagmenn sem börnin geta leitað til eða sem skynja og sjá hvað bjátar á og þá er hægt að koma í veg fyrir að vandinn vindi upp á sig og verði að geðrænum kvillum. Með því að grípa fljótt inn í, vinna með börnum í grunnskólum og framhaldsskólum og jafnvel leikskólum og vinna með foreldrum þeirra, hafa þjónustu í boði, bæði sálfræðiþjónustu og aðra geðheilbrigðisþjónustu, fyrir börn gjaldfrjálsa þá held ég að væri til mikils unnið. Annars vil ég bara hvetja hæstv. ráðherra áfram í þessu starfi. Hann, sem fyrrum formaður fjárlaganefndar, veit ósköp vel og þekkir vel lögin um opinber fjármál og veit hvernig á að haga málum til þess að við sjáum skýrt hver markmiðin eru og hvað þau kosta.