Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[17:46]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir sína ræðu. Mig langar, af því að hún er formaður hv. velferðarnefndar, að fá að stinga upp á því að velferðarnefnd taki það til skoðunar að skýra betur aðgerð 4.A.3, sem fjallar um efla nærþjónustu og fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu vegna vægs til miðlungs alvarlegs geðræns vanda jafnt barna sem fullorðinna. Eins og þetta lítur út núna er þetta ósköp loðið og almennt á meðan í síðustu aðgerðaáætlun voru mælanleg markmið þarna til staðar. Það hefur verið bent á það í umsögnum að það ætti að vera hægt að setja bara einhver markmið um fjölgun stöðugilda og Ríkisendurskoðun finnur sérstaklega að því í skýrslu sinni um geðheilbrigðisþjónustu sem kom út í fyrra að heilsugæslurnar anni ekki þörf fyrir sálfræðiþjónustu, samanber biðlistana sem lengjast og biðtíma sem eykst. Að mati Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þyrfti að tvöfalda fjölda sálfræðinga á landsvísu til að mæta markmiði stjórnvalda. Í þessari aðgerðaáætlun er talað um að skipa hóp sem á að meta mönnun og slíkt en nú liggja auðvitað fyrir alþjóðlegar rannsóknir á þörf fyrir fjölda stöðugilda út frá mannfjölda, t.d. væri hægt að líta til heilsuhagfræðirannsókna í Bretlandi. Ég vil kannski bara stinga upp á því og fá að bera það undir hv. þingmann og formann velferðarnefndar hvort velferðarnefnd ætti ekki að taka það til skoðunar að setja inn mælanlegri fyrirheit í þessa tilteknu aðgerð um fjölgun stöðugilda þannig að það verði ekki stöðnun í rauninni í þessum efnum. (Forseti hringir.) Það er margt gott búið að gerast síðan 2016. En ég held að nú þurfi bara að halda enn áfram að efla þessa þjónustu.