Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

889. mál
[18:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Hér í mínu seinna andsvari hitti ég kannski á eitthvað sem kveikir meira í ráðherranum. Mig langar nefnilega spyrja út í samstarf yfir landamæri sem er verið að bæta inn í 9. gr. frumvarpsins. Þetta er náttúrlega orðin miklu þyngri umræða og nær raunveruleikanum en hún var í síðustu umferðum vegna þess að nú eru á vegum Carbfix í umhverfismati hugmyndir um Coda-stöðina í Straumsvík sem myndi taka á móti gríðarlegu magni koltvísýrings til förgunar hér á landi og hefur nú verið gagnrýnt hversu mikil umhverfisáhrif kunna að vera af því á nærsvæðið þó að síðan séu afleidd loftslagsáhrif mögulega jákvæð.

Það sem mig langar að spyrja að er kannski tvennt. Í fyrsta lagi hvort það verði búið svo um hnútana að — hér töluðum við í fyrra andsvari um að koldíoxíðstraumur skyldi vera þannig að það mætti ekki bæta í hann úrgangi, það stendur hérna í 4. gr., en hvort það sé einhver hætta á því að samhliða þessum innflutningi á koldíoxíði til förgunar verði fluttur inn vökvi sem hægt verði að nota til að dæla þessu niður. Mér dettur t.d. í hug að nágrannar okkar í Noregi eru með ríkisolíufyrirtækið Equinor sem á ári hverju kemur 100–150.000 tonnum af vatni til förgunar í Danmörku vegna þess að þar eru slakari reglur varðandi þann mengaða vökva heldur en í Noregi. Nú eru Danir að herða reglurnar þannig að Norðmenn fara kannski að leita að nýjum förgunarstöðum og þá gætu þeir litið hýru auga niðurdælingu niður í berggrunninn.

Svo langar mig að spyrja, (Forseti hringir.) vegna þess að bókhaldið í tengslum við loftslagssamninginn er enn ekki orðið fullkomið hvað varðar samstarf yfir landamæri (Forseti hringir.) þegar er verið að flytja koltvísýring: Er ekki alveg öruggt að íslensk stjórnvöld standa vörð um að engar tvítalningar eigi sér stað í bókhaldi (Forseti hringir.) þannig að bæði Ísland sem förgunaraðili og landið þar sem losunin á sér stað, að þau geti ekki bæði bókfært hjá sér þessa förgun og tvítalið þannig?