Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

málefni innflytjenda og vinnumarkaðsaðgerðir.

782. mál
[16:19]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Ég styð svo sem þetta mál með öllum þeim ásetningi sem þar er að baki. Ég held að akkur geti verið af ákveðinni hagræðingu í þessum málum og eru ákveðnir vankantar sem fylgja því að vera með litla stofnun.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvers vegna ekki hafi verið brugðist við ábendingum um það hvernig staðið væri að þessari sameiningu og hvort það veki ekki áhyggjur þingmannsins að undirbúningurinn hafi ekki falið í sér nægilegt samráð og að ekki hafi nægilega verið hugað að mannlega þættinum varðandi t.d. kynningu fyrir umbjóðendur þessara embætta á breytingunni og sömuleiðis starfsfólk.

Svo langaði mig til að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi skoðun á því hvað stofnunin eigi að heita og í þriðja lagi hvort þingmaðurinn sjái ekkert athugavert við það að framkvæmdarvaldið hefji vinnu við framkvæmd laga sem ekki er búið að samþykkja á Alþingi, sem var kannski tilfinningin sem maður hafði gagnvart þessu máli. Það liggur á því núna að samþykkja málið vegna þess að farið hefur verið af stað í að framkvæma þessi lög sem við erum ekki búin að samþykkja.