Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

málefni innflytjenda og vinnumarkaðsaðgerðir.

782. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka það sem kom kannski fram í mínu fyrra andsvari, að það er ekki búið að leggja niður Fjölmenningarsetur og það verður auðvitað ekki gert áður en lögin eru samþykkt. Ég treysti því að ef svo færi, alveg eins og með ýmsa aðra löggjöf sem kemur hér til kasta okkar þingmanna að samþykkja eða hafna, þá yrði auðvitað ekki af framkvæmd ef ekki væri fyrir því lagastoð. Við getum alltaf deilt um það og oft og tíðum verið sammála um að mikið væri gott ef mál kæmu fyrr fram. Við þyrftum oft lengri tíma í flóknum og erfiðum málum. Ég held að það sé ekki svo núna. Ég er sannfærð eftir samtöl við bæði fagaðila og gesti, umsagnir og annað sem nefndinni hefur borist, að við séum að stíga gott skref. Samráðið hefur átt sér stað og starfsfólkið er spennt að byrja. Mér heyrist flestir vera að bíða eftir því að þetta verði að lögum svo hægt sé að byrja að vinna og ítreka ég þá sérstaklega þann hag starfsfólks Fjölmenningarseturs af því að komast inn í umhverfi með sterkara stoðkerfi þannig að álagið á einstaklingunum verði minna og þeir geti sinnt sínum störfum betur í staðinn fyrir að vera fastir í einhvers konar stoðþjónustu sem snýr að fjármálum og öðru slíku. Ég held því að þetta sé mjög mikilvægt, en ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að oft vildum við hér á þinginu hafa meiri tíma svo við gætum farið dýpra ofan í málin. Ég held þó að það eigi einfaldlega ekki við í þessu tilfelli. Þetta er gott mál og ég hvet alla hv. þingmenn til að styðja við það.