Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

málefni innflytjenda og vinnumarkaðsaðgerðir.

782. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að koma hingað upp því að það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, að við lítum þetta ekki alveg sömu augum. Ég vil koma því á framfæri og benda á, af því að dálítið misvísandi upplýsingar hafa komið fram, að samráðið var gott. Fenginn var sérstakur fagaðili til að meta kosti og galla sameiningar. Sú vinna hófst í mars og henni lauk í júní. Þetta hefur átt langan aðdraganda. Það hafa verið margir fundir og vinnustofur og samráð haft við sveitarstjórnarfólk, þingmenn kjördæmisins, starfsfólk og forstöðumenn. Við erum að tala um heilt ár af undirbúningsvinnu. Þess vegna vil ég neita því að þetta mál sé á einhvern hátt illa unnið eða hafi ekki fengið einhvern tíma.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Ef málið er gott og ef það er niðurstaða allra aðila sem að þessu hafa komið, eins og hefur komið fram á fundum nefndarinnar, að fólk sé fyrst og fremst spennt fyrir því að geta byrjað að vinna, hvers vegna erum við þá hér með langt nefndarálit minni hluta um hvað þetta sé allt ómögulegt? Fyrir hvað stendur þetta? Nýjar áherslur, nýtt verklag og ný vinnumenning er eitthvað sem ég heyrði fleygt eftir landsfund Samfylkingarinnar. Ég spyr mig: Þegar góð mál sem snerta okkar viðkvæmustu hópa eru hér fyrir þinginu og við ættum öll að standa sem eitt að baki því að flýta verkefnum til þess að praktíkin komist í gang, af hverju erum við þá að vinna svona?