Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

kvikmyndalög.

899. mál
[17:21]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á kvikmyndalögum. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á kvikmyndalögum, nr. 137/2001. Fela þær breytingar einkum í sér að lagt er til að komið verði á laggirnar nýjum styrkjaflokki innan Kvikmyndasjóðs. Styrkjaflokknum er ætlað að veita styrki til umfangsmikilla sjónvarpsþáttaverkefna með skilyrðum um endurheimt þeirra að hluta nái verkefni ákveðnu tekjumarki. Er þessi tillaga í samræmi við áherslur og aðgerðir í Kvikmyndastefnu til ársins 2030 sem gefin var út í október 2020 en þar er fjallað um styrki til leikinna sjónvarpsþáttaraða undir markmiðinu auðug kvikmyndamenning. Markmiðið miðar að því að stuðla að fjölbreyttri kvikmyndamenningu sem styrki sjálfsmynd þjóðarinnar og efli íslenska tungu.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að kveðið verði á um varðveislu kvikmyndaarfs á Íslandi, kvikmyndafræðslu, hámark skipunartíma forstöðumanns Kvikmyndasafns Íslands sem og gjaldskrárheimild safnsins. Að auki er lagt til ákvæði þess efnis að í reglugerð verði kveðið á um að meginskipting fjárveitingar Kvikmyndasjóðs milli einstakra greina kvikmyndagerðar falli brott í núverandi mynd og horft verði til þess að annað fyrirkomulag verði tekið upp.

Kvikmyndastefnan, sem unnin var af fulltrúum hagsmunaaðila, þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti og þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, náði yfir kvikmyndamenningu, kvikmyndamenntun, þróun og framleiðslu kvikmyndaefnis og alþjóðlega kynningu. Hópurinn skoðaði m.a. stofnana- og stuðningskerfi kvikmyndagerðar með tilliti til einföldunar og eflingar og er eitt af markmiðum stefnunnar að byggja sterkara sjóðakerfi sem styður við fjölbreyttari kvikmyndaverk, sjóðakerfi sem ætlað er að koma til móts við nýja tíma sem einkennast af hröðu þróunar- og fjármögnunarferli verkefna og er ætlað að ýta undir framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna sjónvarpsþáttaraða að fyrirmynd Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins.

Veruleg breyting hefur orðið á miðlun, framleiðslu og fjármögnun sjónvarpsþáttaraða á undanförnum árum. Breytingar á alþjóðlegu þróunar- og fjármögnunarkerfi sjónvarpsþáttaraða hafa leitt til þess að fjármögnun síðustu 15–20% kostnaðar, eða svokölluð lokafjármögnun, er orðin erfiðari en áður. Í alþjóðlegu framleiðsluumhverfi sjónvarpsverka hefur framleiðslukostnaður hækkað og samkeppnisstaða þeirra sem ætla að framleiða efni fyrir sjónvarp í smærra sniði eða fyrir smærra markaðssvæði er orðin lakari, erfiðari en áður. Framleiðsla sjónvarpsþáttaraða fer orðið í auknum mæli fram í samstarfi við önnur lönd þar sem listrænt og faglegt samstarf getur styrkt sjálfstæða framleiðendur og aukið gæði í framleiðslu.

Til þess að styrkja stöðu innlendra framleiðenda í þessu breytta umhverfi er framleiðslustyrkur til lokafjármögnunar nauðsynlegur. Þessu breytta umhverfi fylgja ýmsar áskoranir. Framleiðslufyrirtæki eiga þannig undir högg að sækja við að bera ábyrgð á mótun, þróun, fjármögnun og framleiðslu verkefna. Tilhneigingin getur orðið sú að framleiðendur sinni í auknum mæli þjónustuhlutverki við framleiðslu þar sem ritstjórnarlegt vald og réttindi liggja hjá fjölmiðlaveitum. Til þess að styrkja stöðu sjálfstæðra framleiðenda þarf að bregðast við breytingum í fjármögnunar- og þróunarumhverfi leikinna sjónvarpsþáttaraða. Mikilvægt er að íslensk frásagnarhefð og framleiðsla eigi þátt í þessari þróun. Með nýjum framleiðslustyrkjaflokki til lokafjármögnunar vegna leikinna sjónvarpsþáttaraða er samtímis hvatt til þátttöku í alþjóðlegum verkefnum og styrkt staða framleiðenda íslensks efnis til að móta sjálfstæði í efnistökum, frásagnarhefð og frumsköpun.

Herra forseti. Með breytingu á kvikmyndalögum er lagt til að nýtt ákvæði komi í 6. gr. sem fjallar um nýja heimild fyrir Kvikmyndasjóð til að veita styrki með skilyrðum um endurheimt ef ákveðnu tekjuviðmiði viðkomandi verkefnis er náð. Gert er ráð fyrir að ráðstöfunarfé Kvikmyndasjóðs geti aukist þegar endurgreiðslur koma til framkvæmda. Heildarfjárhæð styrkveitinga hækki að sama marki og stuðli þannig að því markmiði laganna að efla kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu hér á landi. Ekki er hins vegar viðbúið að það gerist fyrr en að nokkrum árum liðnum frá því að nýjum styrkjaflokki er komið á fót.

Auk þess er í 1. gr. frumvarpsins lagt til að kveðið verði á um varðveislu kvikmyndaarfs á Íslandi en ekki er getið um kvikmyndaarf í lögunum. Markmið tillögunnar er að undirstrika mikilvægi varðveislu þess kvikmyndaarfs sem Ísland býr yfir. Hér er ekki eingöngu átt við kvikmyndaefni eftir íslenskt kvikmyndagerðarfólk heldur hefur fjöldi mynda og myndbrota verið tekinn upp hér á landi í gegnum tíðina. Er þessi tillaga einnig í samræmi við áherslur og aðgerðir í kvikmyndastefnu en þar er lögð áhersla á varðveislu, miðlun og aukið aðgengi að kvikmyndaarfinum.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að bætt verði við verkefni Kvikmyndamiðstöðvar Íslands um að miðstöðin efli kvikmyndafræðslu á Íslandi en í kvikmyndastefnu er miðstöðinni ætlað víðtækara hlutverk en áður, m.a. að sinna kvikmyndauppeldi og mynd- og miðlalæsi. Meðal annars er gert ráð fyrir að Kvikmyndamiðstöð þrói námsefni fyrir öll skólastig að erlendri fyrirmynd. Í dag ná kvikmyndalögin ekki utan um þetta hlutverk miðstöðvarinnar.

Í 4. gr. er lagt til að bætt verði við málsl. sem kveði á um hámark á skipunartíma forstöðumanns Kvikmyndasafns Íslands. Þannig geti sami einstaklingur aðeins verið skipaður tvisvar sem forstöðumaður safnsins. Það er í samræmi við skipunartíma forstöðumanna annarra opinberra stofnana á sviði lista, t.d. skipun forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Þjóðleikhússtjóra og safnstjóra Listasafns Íslands.

Í 5. gr. er lögð til breyting á gjaldskrárheimild Kvikmyndasafns Íslands í þeim tilgangi að uppfæra hana með tilliti til tæknibreytinga sem orðið hafa á síðastliðnum árum.

Að lokum er lagt til í 6. gr. frumvarpsins að fella brott ákvæði um að í reglugerð verði kveðið á um meginskiptingu fjárveitingar Kvikmyndasjóðs milli einstakra greina kvikmyndagerðar.

Herra forseti. Ég tel að hér sé um mikið framfaramál að ræða og að með þessum breytingum á styrkjakerfi Kvikmyndasjóðs séum við að stuðla að því að íslensk kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð geti staðið jafnfætis erlendri framleiðslu og búið henni góð vaxtarskilyrði. Tillögum í frumvarpinu er ætlað að styðja við framleiðslu leikinna sjónvarpsþáttaraða og annarra vandaðra kvikmynda, enda renni hugsanleg endurheimt styrkja í Kvikmyndasjóð og þar með verði aukið fjármagn til kvikmyndagerðar. Þá mun samræming á skipunartíma forstöðumanna stuðla að þróun og endurnýjun í kvikmyndagerð almennt.

Herra forseti. Að að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr. til umfjöllunar.