Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

kvikmyndalög.

899. mál
[17:28]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og þetta er gott og áhugavert mál. Ég kannast eilítið við það eftir að atvinnuveganefnd fékk í hendurnar í lok síðasta árs svona flýtimeðferðarmál tengt þessu, bara í ljósi þess hvernig mál höfðu æxlast. Þar var töluvert talað um af þeim sem mátu málið að það væri mikilvægt að fjármagna svona mál, hafa fjárheimildir til staðar og vera með mat á kostnaði. Í ljósi þess síðan, eins og ráðherra kom inn á hér þegar hann rakti málið, að þessar endurgreiðslur sem eiga í framtíðinni að standa undir kostnaði Kvikmyndasjóðs koma ekki fyrr en að nokkrum árum liðnum, og í ljósi þess að akkúrat fyrr í dag var hæstv. ráðherra ásamt kollegum sínum að kynna fjármálaáætlun á býsna erfiðum tímum, þá langar mig að nýta tækifærið hér, af því að ég hef ekki haft svigrúm til að fara ofan í þau gögn sem þar voru kynnt, og spyrja hvort staðan hafi einhver áhrif á þetta mál. Er eitthvað verið að draga úr þeim fyrirsjáanlega kostnaði sem fellur á ríkissjóð næstu árin á meðan við erum að ná tökum á þessari atvinnugrein, ef svo má segja? Er það eitthvað sem stjórnvöld litu til, að það þyrfti að hægja á núna til að draga úr útgjöldum ríkissjóðs og stemma stigu við þenslu næstu mánaða, mögulega ára?