Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

kvikmyndalög.

899. mál
[17:30]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir utan hið almenna aðhald sem eykst vissulega úr 1% í 2% þá er í raun frekar verið að verja alls kyns geira samfélagsins og í tilviki þessa nýja styrkjaflokks þá er hann fjármagnaður úr Kvikmyndasjóði eins og önnur kvikmyndaverkefni og hann er á fjárlögum. Mér er kunnugt um að það sé ekki reiknað með hækkun framlags til Kvikmyndasjóðs á fjárlögum 2024 heldur sé reiknað með að hann geti fallið innan þess ramma sem þar er. En það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að um leið og verkefni fara að ná flugi í gegnum þessa lokafjármögnun og skila einhverjum hagnaði umfram ákveðin tekjumörk þá verður endurgreiðsla til sjóðsins og þannig mun hann smátt og smátt vaxa næstu árin og geta þannig orðið öflugri. Eftir því sem ég líka best veit fór þetta verkefni í það minnsta tvisvar sinnum í samráð og eftir fyrra umsagnarferlið voru teknir fundir með bæði fulltrúum Kvikmyndamiðstöðvar og kvikmyndaráðs og ákveðnar breytingar gerðar og í seinna umsagnarferlinu bárust engar umsagnir, sem bendir til þess að menn hafi verið nokkuð sáttir.