Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[11:39]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er 1. varaformaður allsherjar- og menntamálanefndar og á því sæti í þeirri nefnd sem málið varðar. Allsherjar- og menntamálanefnd óskaði ítrekað eftir því að hæstv. dómsmálaráðherra sæi til þess að nefndin fengi afhent gögn með vísan til 1. mgr. 51. gr. þingskapalaga eða samtals þrisvar sinnum. Hæstv. dómsmálaráðherra varð ekki við því samkvæmt ákvæðinu og braut með því 1. mgr. 51. gr. þingskapalaga. Einungis ríkari almannahagsmunir og einkahagsmunir geta takmarkað aðgang nefndar að gögnum, samkvæmt niðurlagi 51. gr. laganna. Þessir ríkari hagsmunir voru ekki fyrir hendi. Hæstv. dómsmálaráðherra sýndi með framkomu sinni Alþingi mikið virðingarleysi, virðingarleysi fyrir störfum Alþingis og þeirri vinnu sem fer fram á Alþingi og í allsherjar- og menntamálanefnd við undirbúning löggjafar. Hér er ekki um að ræða undirbúning undir stjórnvaldsákvörðun hjá Útlendingastofnun líkt og hæstv. dómsmálaráðherra ber fyrir sig. Undirbúningur undir löggjöf og undirbúningur undir stjórnvaldsákvörðun eru tveir gjörólíkir hlutir. Stjórnsýslulög eiga ekki við um mál sem eru til afgreiðslu á Alþingi Íslendinga. Svo einfalt er það. Skiptir þá engu hvar sú vinna fer fram, hvort hún fer fram hjá stofnun eða hjá einkaaðila. Stjórnsýslulögin eiga einfaldlega ekki við um umsagnir við lagafrumvörp sem eru til afgreiðslu á Alþingi Íslendinga.

Það að hæstv. dómsmálaráðherra hafi staðið að því að nefndin hafi ekki fengið þær upplýsingar og þau gögn sem nefndin bað um, vegna vinnu við lagafrumvarp sem var í smíðum, hefur valdið miklum töfum í störfum nefndarinnar og þyngt mjög vinnu í nefndinni og er ekki á bætandi. Mikill tími og mikil orka hefur farið í það hjá nefndarmönnum að reyna að fá hæstv. dómsmálaráðherra til að stuðla að því að umbeðin gögn yrðu afhent allsherjar- og menntamálanefnd. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur unnið markvisst gegn nefndinni með hegðun sinni í þessu máli og þar með komið í veg fyrir að allsherjar- og menntamálanefnd geti sinnt störfum sínum sem skyldi.

Eins og áður sagði er hér ekki verið að tala um stjórnsýsluleið, líkt og komið hefur fram í ræðu. Hér um að ræða undirbúning undir löggjöf, ekki stjórnvaldsákvörðun. Umsagnir um lagafrumvarp til undirbúnings löggjafar falla ekki undir reglur stjórnsýslunnar. Stjórnsýsla framkvæmdarvaldsins og löggjafarstarf Alþingis eru tveir gjörólíkir hlutir. Það á sér stoð í þrígreiningu ríkisvaldsins sem tryggð er í 2. gr. stjórnarskrárinnar.

Líkt og fram kemur í minnisblaði frá skrifstofu Alþingis um málið er 1. mgr. 51. gr. þingskapalaga liður í því að Alþingi geti framkvæmt þau störf sem stjórnarskráin felur því. Í minnisblaðinu kemur fram að til að Alþingi geti afgreitt mál með viðeigandi hætti þarf það að fá þau gögn sem máli skipta. Það gat Alþingi ekki vegna framkomu og virðingarleysis hæstv. dómsmálaráðherra. Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis og þar með Alþingi Íslendinga fékk ekki þau gögn og upplýsingar sem nefndin óskaði ítrekað eftir að hæstv. dómsmálaráðherra léti þinginu í té og nauðsynleg voru til að Alþingi gæti sinnt starfi sínu með viðunandi hætti. Framkoma hæstv. dómsmálaráðherra kom í veg fyrir það. Með því að afhenda ekki gögnin sýndi hæstv. dómsmálaráðherra Alþingi Íslendinga mikla vanvirðingu og því mikilvæga starfi sem þarf að fara þar fram til undirbúnings lagasetningar. Við getum tekist á í þingsal og sinnt starfi okkar sem ráðherrar, stjórnarþingmenn í þingmeirihluta og í stjórnarandstöðu. Það breytir því ekki að við verðum alltaf að hafa virðingu fyrir Alþingi að leiðarljósi í öllu okkar starfi. Það er skylda okkar í þingræðisríki.

Með framkomu sinni sýndi hæstv. dómsmálaráðherra Alþingi ótrúlegt virðingarleysi. Þetta virðingarleysi gagnvart Alþingi kallar á viðbrögð Alþingis. Allar gjörðir hafa afleiðingar og þetta virðingarleysi hæstv. dómsmálaráðherra gagnvart Alþingi á að leiða til þess að Alþingi Íslendinga á ekki að þola hæstv. dómsmálaráðherra í starfi, á ekki að þola að hann sitji áfram í embætti. Virðing alþingismanna fyrir starfi sínu krefst þess. Það sem meira er, virðing Alþingis krefst þess.