Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[11:53]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Hér hefur stjórnarandstaðan dregið mjög brattar ályktanir af minnisblaði Alþingis um veitingu ríkisborgararéttar og samspil löggjafar- og framkvæmdarvalds. Mögulega eiga þessar bröttu ályktanir rætur að rekja til þeirra óviðeigandi ummæla sem hæstv. dómsmálaráðherra lét falla í þingsal fyrr í vikunni, (Gripið fram í: Nei.) og voru sannarlega ekki sögð í nafni okkar Vinstri grænna. Það breytir því ekki að téð minnisblað kallar ekki á þessa vantrauststillögu heldur kallar það á að Alþingi og dómsmálaráðuneyti finni raunverulega lausn á þessu máli. Það er ábyrgðarhluti í stjórnmálum að vinna að raunverulegum lausnum. Það er alveg ljóst af minni hálfu að valið nú snýst um að styðja ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur til áframhaldandi góðra verka, ríkisstjórn sem hefur skilað miklum málefnalegum árangri fyrir fólkið í landinu og hefur frekari áform um það, nú síðast með fjármálaáætlun sem kynnt var í gær. Ég styð þessa ríkisstjórn til áframhaldandi góðra verka í þágu lands og þjóðar.