Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[11:57]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér á eftir atkvæði um vantrauststillögu á hæstv. dómsmálaráðherra Jón Gunnarsson. Minnisblað sem skrifstofa Alþingis skilaði frá sér nýverið staðfesti það sem ítrekað hefur verið bent á, að ákvörðun hans um að beina því til undirstofnunar sinnar að skila ekki nauðsynlegum gögnum til þingsins, þvert á skilyrði laga, hafi komið í veg fyrir að hv. allsherjar- og menntamálanefnd gæti sinnt lögbundnum skyldum sínum. Allsherjar- og menntamálanefnd kallaði ítrekað eftir gögnum frá Útlendingastofnun, m.a. í fundarstjórn hér í þingsal, en án árangurs. Hæstv. ráðherra gekk svo langt að halda því fram að hann væri í fullum rétti til að koma í veg fyrir að tilskilin gögn bærust nefndinni og hann hefði m.a. gefið Útlendingastofnun þau fyrirmæli að afhenda ekki gögnin. Með þessu háttalagi kom ráðherra í veg fyrir að þingið gæti unnið vinnuna sína, sem þinginu ber að sjálfsögðu að gera.

Ýmsir þingmenn hafa í gegnum tíðina lýst sig ósammála því fyrirkomulagi að Alþingi veiti ríkisborgararétt. Það gerði líka forveri hæstv. dómsmálaráðherra í starfi, Sigríður Á. Andersen. Hún bar þá dómgreind til að fylgja lögum í stað þess að brjóta þau.

Virðulegi forseti. Það má spyrja sig hvort þessi hegðan ráðherra eigi að leiða til þess að hann fái á sig vantrauststillögu. Eru þetta slík afglöp í starfi að það leiði til þess að hann láti af störfum? Í mínum huga leikur ekki á því nokkur vafi. Það var ekki eins og ráðherrann hefði misstigið sig ómeðvitað og hefði í framhaldinu beðist afsökunar á vinnubrögðunum, heldur var ráðherrann algjörlega meðvitaður um gjörðir sínar. Með því kom hann í veg fyrir að þingið gæti sinnt sínum lögbundnu og stjórnarskrárbundnu skyldum. Ég á því ekki erfitt með að styðja tillögu um vantraust á ráðherra sem gerir slíkt og mun segja já við fram kominni vantrauststillögu.