Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:02]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Sú umræða sem hefur farið hér fram um vantrauststillögu á dómsmálaráðherra er dálítið sérkennileg en um leið pínulítið áhugaverð. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að stjórnarandstaðan er sannfærð um það að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sé óhæf og eigi að fara frá völdum. Það er eðli stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Engin ríkisstjórn og enginn ráðherra má vera án aðhalds stjórnarandstöðu. Málefnaleg gagnrýni er einn af hornsteinum lýðræðis.

En, frú forseti, það skal játað að það hefur komið aðeins illa við mig að skynja það hversu persónuleg andúð á pólitískum andstæðingum er farin að vera ríkjandi þáttur í þessum þingsal á undanförnum mánuðum. Stjórnarandstaðan hefur ranglega haldið því fram að í minnisblaði frá skrifstofu Alþingis til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sé komist að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hafi brotið lög. Það er rangt eins og allir þeir sem lesa minnisblaðið geta gert sér grein fyrir. (IngS: Þeir eru þá bara ólæsir.) Hvergi í minnisblaðinu, hv. þingmaður, er því haldið fram að ráðherra hafi brotið lög. Það er rangt að halda því fram að ráðherra hafi bannað Útlendingastofnun að afhenda Alþingi umbeðin gögn. En það vekur athygli mína, frú forseti, að enn einu sinni fæst staðfesting á því að Píratar marka stefnuna hjá stjórnarandstöðunni, taka forystu í upphlaupsmálum. [Hlátur í þingsal.] Flokkur fólksins, Viðreisn og Samfylkingin fylgja á eftir og eiga í fullu fangi með að halda í við Pírata. (Gripið fram í.) Ég heyri það að þetta kemur illa við suma hér. Ég heyri það. En hvort uppskeran verður eins og til er sáð fyrir þessa þrjá flokka sem fylgja Pírötum og leiðbeiningum þeirra og forystu verður þannig að það skili árangri á kjördegi á eftir að koma í ljós. Ég ætla að efast um það.

Hér í þessari umræðu hafa orð verið látin falla, sum stór. Það hafa verið ýkjur og það hafa verið rangar fullyrðingar en það hafa líka komið fram málefnaleg sjónarmið sem öllum er hollt að taka tillit til, ráðherrum og þingmönnum. Ég vona, frú forseti, að okkur auðnist eftir þessa umræðu og atkvæðagreiðslu að snúa okkur að þeim verkefnum sem eru svo mikilvæg og bíða okkar og þjóðin vill að við sinnum.