Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:13]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég ætla að fara yfir það nokkrum orðum hvernig stjórnarliðar og ráðherrar hafa rökstutt það að þeir styðji ekki þessa vantrauststillögu. Rökin sem notuð hafa verið hafa snúist um eitthvað annað en efni tillögunnar. Hér hefur hver komið upp í pontu á fætur öðrum og sagt: Þetta snýst um meiðyrði og brigslyrði ráðherrans. Þess vegna er tillagan sett fram. Af hverju segja stjórnarliðar þetta og ráðherrar? Það er vegna þess að þannig geta þeir rökstutt fyrir sjálfum sér að það eigi að fella vantraustið. Þeir treysta sér ekki í að kjarna efnið sem á bak við tillöguna er; hið raunverulega lögbrot ráðherrans sem kom í veg fyrir það að Alþingi gæti sinnt hlutverki sínu. Menn hafa notað hér sem rök langan málahala í stofnunum. Hugsið ykkur það. Það er svo mikið að gera í stofnunum að ég má brjóta lög. Ég á ekki að setja meiri pening í stofnanirnar eða breyta lagaumgjörðinni. Nei, þegar málahalinn er orðinn of langur, þá má ég brjóta lög. Við þurfum að leiða ágreining í jörð, sagði varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Nákvæmlega. Við þurfum einmitt að leiða ágreininginn í jörð en ekki að brjóta lögin. Það er þannig sem við vinnum. Leiðum fyrst ágreining í jörð til þess að við getum unnið eftir breyttu verklagi.

Það var vissulega áhugavert, þótt hæstv. ráðherrar væru að verja samráðherra sinn, hvað þeir gáfu sér góðan tíma í það að benda á að ráðherrann hefur á köflum verið eins og fíll í postulínsbúð í störfum sínum. Það hafa ráðherrarnir ítrekað komið inn á, m.a. bent á brigslyrðin og meiðyrðin og framgöngu hans í öðrum málum. Ég tek heils hugar undir það en þetta er ekki andlag þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir. Við erum að ræða um það hvort við eigum að setja fordæmi fyrir því, að gefnum einhverjum ákveðnum forsendum, með vísan í eitthvað sem á sér rætur í fortíðinni, að við getum mögulega komist að þeirri niðurstöðu að ráðherra sé á einhverjum tímapunkti heimilt að brjóta lög, heimilt að koma í veg fyrir það að þingið fái gögn til að setja lög.

Hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins setti einhvers konar met hér áðan. Trompar kerfið fólkið? spurði hann. Trompar kerfið fólkið? Allsherjar- og menntamálanefnd, öll nefndin, var sammála um að biðja um þessi gögn fyrir fólkið sem sótti um en það var hins vegar kerfið sem kom í veg fyrir það að fólkið fengi inn í nefndina gögnin sem áttu að fylgja umsögnunum og því varð í sumum tilvikum ekkert úr því að fólkið fengi úrlausn sinna mála hjá nefndinni. Það er nákvæmlega kjarni málsins og fram hjá þessu komast menn ekki. (Forseti hringir.)

Við getum ekki hagað okkur á þann veg að rökstyðja það að fella tillögu um vantraust (Forseti hringir.) með því að segja við fólkið þarna úti: Tillagan er um eitthvað annað en hún raunverulega er. Má ráðherra brjóta lög? (Forseti hringir.) Já eða nei? Þetta er ekki flókið. Megum við brjóta lög sem við erum ósammála? Nei.