Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:21]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Réttur þingsins til þess að kalla eftir upplýsingum sem það þarf til að sinna störfum sínum er skýlaus, víðtækur og gríðarlega mikilvægur. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn og ekki má leyfa ráðherrum að taka sér það vald að ákveða hvaða upplýsingar þingið eigi að fá og hverjar ekki. Ef við samþykkjum það einu sinni erum við að setja fordæmi sem er ekki bara hættulegt heldur beinlínis andstætt stjórnskipan lýðveldisins Íslands, enda upplýsingaréttur þingsins tryggður í 54. gr. stjórnarskrárinnar. Þess vegna leggjum við til vantraust gegn dómsmálaráðherra til að standa vörð um grundvallarstjórnskipan Íslands. Um það snýst þessi tillaga og ekkert annað.