Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:22]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Alþingi Íslendinga á fortakslausan rétt til upplýsinga og gagna frá framkvæmdarvaldinu lögum samkvæmt, og um það snýst málið. Það snýst um rétt Alþingis samkvæmt lögum sem dómsmálaráðherra brýtur, um rétt Alþingis sem allir þingmenn allsherjar- og menntamálanefndar eru sammála um, þvert á flokka, að sé fortakslaus. En valdið ætlar greinilega að veita ráðherra skjól hér. Málsvörnin virðist fyrst og fremst snúast um persónu dómsmálaráðherra. Ég ætla ekki að deila um það. En efnislega er málsvörnin sú að lögin séu svo vond að það þurfi að breyta málsmeðferðinni. Það er grátbroslegt að heyra hvern einasta ráðherra og stjórnarþingmann koma hingað upp og lýsa þessu yfir. Ég segi: Ef bara þau gætu breytt þessu löglega. Fjármálaráðherra spyr svo: Hvað með almenning, trompar kerfið almenning? Ég spyr á móti: Kallast lög nú kerfi þegar á að brjóta lög? Trompar (Forseti hringir.) kerfið almenning, heitir það þegar á að réttlæta brot á lögum. Þingflokkur Viðreisnar stendur heils hugar með vantrauststillögunni.