Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:37]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að ég tel að þessar umræður sem hér hafa átt sér stað séu alls ekki til vanvirðu fyrir Alþingi, þvert á móti. Þetta eru að mörgu leyti mjög góðar umræður. Ég tel heldur ekki að sú tillaga sem hér er lögð fram beri vott um einhverja vanvirðingu fyrir Alþingi eða eitthvað slíkt, þvert á móti. Alþingi á einmitt að senda þau skilaboð til ráðherra að það líði ekki framkomu eins og þá sem hér hefur átt sér stað.

Varðandi efnislega málið þá held ég að allir viti hvert álitaefnið er. Einstaklingur sem óskar eftir ríkisborgararétti til Alþingis Íslendinga sendir umsókn til Alþingis. Alþingi felur stjórnsýslustofnun að veita umsögn um þá umsókn. Þessi umsögn fellur ekki undir stjórnsýslulög. Stjórnsýslulög eiga ekki við um mál sem eru til afgreiðslu á Alþingi Íslendinga, þau eiga það ekki. Umsagnir um lagafrumvarp til undirbúnings löggjafar falla ekki undir reglur stjórnsýslunnar. Það skiptir þá engu máli hvort það séu umsagnir um ákveðna þætti í frumvarpinu, í löggjöfinni, eða um frumvarpið í heild. Svo einfalt er það. (Forseti hringir.) Við erum löggjafinn og við föllum ekki undir stjórnsýslulögin. Það er álitaefnið og það er það sem við eigum að ræða um.