Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar svaraði dómsmálaráðherra fyrirspurn hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur um 51. gr. þingskapalaga, sem fjallar um upplýsingabeiðni nefndar til stjórnvalda. Spurningin var sem sagt: Er Útlendingastofnun bundin af fyrirmælum eða beiðnum þingsins skv. 51. gr. þingskapalaga? Svarið var, með leyfi forseta:

„Nei, 51. gr. þingskapa á ekki við í þessu tilfelli. Hún er í þeim kafla í þingskapalögum sem fjallar um eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu.“

Þetta er gríðarlega villandi. Það er einkennandi fyrir allan málflutning dómsmálaráðherra að í öllum þessum málum, þar sem hann kýs að vísa í að 51. gr. sé í kafla um eftirlitshlutverk, hunsar hann algjörlega að kaflinn heitir Eftirlitsstörf Alþingis og almennar umræður. Augljósara verður rökþrot ráðherra ekki þegar hann velur eftir sinni hentisemi þann helming kaflaheitisins sem skiptir engu máli í þessu samhengi með tilliti til 51. gr. (Forseti hringir.) Fylgist bara með í næsta þætti þegar dómsmálaráðherra neitar að svara fyrirspurn af því að hún tengist kafla þingskapalaga um almennar umræður. Í alvörunni, Kafka gæti ekki samið þennan farsa sem við þurfum að þola frá dómsmálaráðherra.