Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:42]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég neyðist til að koma hér upp vegna orða hæstv. fjármálaráðherra sem undraðist að verið væri að krefja stjórnvöld um að útbúa gögn eins og Alþingi ætti einhverja heimtingu á því. Ég verð að hryggja hæstv. fjármálaráðherra með því að þetta stendur í lögum um íslenskan ríkisborgararétt frá 1952, en í 6. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Alþingi veitir ríkisborgararétt með lögum.

Áður en umsókn um ríkisborgararétt er lögð fyrir Alþingi skal Útlendingastofnun fá um hana umsögn lögreglustjóra á dvalarstað umsækjanda. Enn fremur skal Útlendingastofnun gefa umsögn um umsóknina.“

— Enn fremur skal Útlendingastofnun gefa umsögn um umsóknina. Þannig er það. (Forseti hringir.) Þess vegna er ráðherra að grípa fram fyrir hendurnar á Alþingi þegar hann segir: Þið þurfið ekki að afgreiða þetta eins og Alþingi hefur afgreitt þessi mál með reglubundnum hætti, tvisvar á ári undanfarin 30 ár. (Forseti hringir.) Þetta hlýtur hinn löglærði formaður Sjálfstæðisflokksins að muna þó að það sé langt síðan hann var í lagadeildinni.