Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:48]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Upplýsingaréttur þingsins er til þess fallinn að þingið geti sinnt sínum löggjafarstörfum, þar á meðal búið til löggjöf, ekki bara í aðhaldi sínu og eftirliti með framkvæmdarvaldinu. Við skulum bara árétta þetta fyrir lögfræðingnum Bjarna Benediktssyni. Stjórnvöldum er einfaldlega skylt samkvæmt stjórnarskrá, samkvæmt 51. gr. þingskapalaga, að afhenda þinginu þau gögn sem það óskar eftir til að geta sinnt starfi sínu. Samkvæmt sömu ákvæðum er stjórnvöldum líka skylt að taka saman upplýsingar, vinna úr þeim svör við spurningum þingmanna um hin ýmsu álitaefni sem upp kunna að koma við vinnslu lagasetningar. Þannig getur ráðherra ekki bara sagt, ef þingið kallar eftir upplýsingum: Ég veit ekki hvernig sambærilegri löggjöf er háttað á Norðurlöndunum, eða: Það er allt of mikið vesen að skoða hvaða áhrif þessar tillögur mínar eiga eftir að hafa á samfélagið okkar. Ráðherrum ber einfaldlega skylda til að taka þessar upplýsingar saman og undirstofnanir bera þessa skyldu líka. Um það snýst þetta. Það er brotið gegn þessari skyldu og hér er verið að draga þessa skyldu í efa. Það er þetta fordæmi (Forseti hringir.) sem verið er að setja og verið að innsigla af stjórnarliðum á Alþingi Íslendinga.